152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[12:58]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er örugglega fullt af góðu dóti í þessari þingsályktunartillögu, í þessum breytingum. Sumt finnst mér vera rökrétt, annað ekki. En mér finnst það ekki vera punkturinn sem við erum að reyna að koma á framfæri. Mér finnst að ríkisstjórn sem er að fara í þessar veigamiklu breytingar eigi að koma með til okkar rök fyrir því af hverju þau eru að fara þessa leið. Að kalla það íhaldssemi að við biðjum um að fá sönnunargögn um að það séu faglegar forsendur sem liggja að baki þessum breytingum, það sé búið að skoða alvarlega hver árangurinn verður og hvers vegna, á hvaða rökum það sé reist — það er ekki íhaldssemi. Íhaldssemi felst í því þegar þrír formenn loka sig inni í herbergi og útbýta einhverjum ráðuneytum eftir sínu hugarflugi. Það er íhaldssemi af því að þannig hafa hlutirnir alltaf verið gerðir hér. Við erum að biðja um eitthvað nýtt. Við viljum fá að sjá sviðsmyndir, faglegar forsendur, rök, gögn.