152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[13:02]
Horfa

ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Af því að hér var minnst á nýtt menningarmálaráðuneyti og að ríkisstjórnin hefði ekki komið með neitt nýtt varðandi þá stöðu sem uppi er í menningunni þá virðist mér að hv. þingmaður sem hóf máls á því fylgist jafnvel ekkert sérlega vel með. Í gær voru kynntar aðgerðir, sértækar aðgerðir, fyrir tónlistina og sviðslistirnar sem nema tæplega hálfum milljarði króna. Við erum að fara að breyta lögum um starfslaun listamanna þar sem verður sérstakur flokkur fyrir ungt listafólk. Og ég get líka upplýst hv. þingmann um að þessar tillögur koma frá grasrótinni og við höfum verið í sérstaklega góðu sambandi við okkar fólk þar. Einnig vil ég nefna að kynntar voru aðgerðir þar sem við erum að framlengja viðspyrnustyrkina þannig að ég vísa á bug málflutningi hv. þingmanns og bið hann kannski um að fylgjast aðeins betur með.