152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

starf Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laga nr. 92/2019.

162. mál
[13:48]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það sem kemur fram í skýrslunni er í fyrsta lagi varðandi þessa stefnumótun, sem ég kom stuttlega að, þ.e. opinbera stefnu um fjármálastöðugleika, sem tengist því sem hv. þingmaður nefnir hér, að fjármálastöðugleikaráð þyrfti að ljúka endurskoðun á þeirri opinberu stefnu því að það myndi gera starf fjármálastöðugleikanefndar markvissara. Það tengist því markmiði líka sem fram kom í skýrslunni á sínum tíma sem unnin var um ramma peningastefnunnar, að þá fengi markaðurinn framsýna leiðsögn, eins og það er kallað.

Síðan hvað varðar þjóðhagsvarúðartækin sem hv. þingmaður vill nefna hér þá eru í raun og veru nokkuð skýrar reglur markaðar í lögunum. Ákvarðanir um beitingu stjórntækja varðandi fjármálastöðugleika eru teknar af fjármálastöðugleikanefnd, ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabankans í peningamálum eru teknar af peningastefnunefnd, en á einhverjum sviðum, eins og bent er á í skýrslunni, kunna þessi stjórntæki af skarast og í raun kunna markmiðin á sviði peningastefnu og fjármálastöðugleika að skarast líka. Það er nokkuð sem þyrfti að skýra þannig að það væri algjörlega ljóst hvar ákvörðunarvaldið liggur. Þetta er í raun og veru, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, reynsla af tveimur árum í sameinaðri stofnun. Þessi reynsla gefur okkur ákveðnar vísbendingar um að það sé þörf á að skýra þessa verkaskiptingu, annars vegar með lagabreytingum og hins vegar um það sem ég eyddi minni tíma í, sem er hreinlega að hafa starfsreglur nefndanna skýrari, sem er verkefnis bankans sjálfs að setja sér sem sjálfstæðrar stofnunar.

Af því að hv. þingmaður nefnir þetta sérstaklega, þá er þetta að sjálfsögðu eitthvað sem þarf að vera skýrt en ekki síður gagnsætt fyrir almenning hvernig nákvæmlega verkaskiptingunni er háttað.