152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

starf Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laga nr. 92/2019.

162. mál
[13:51]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka skýr og greinargóð svör. Ég er sammála og vil taka undir þá tillögu hæstv. forsætisráðherra að úttektarnefndin komi fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og geri grein fyrir úttektinni, fari betur yfir þetta allt saman.

Hér er t.d. minnst á starfsreglur og svoleiðis. Það er eitt sem kemur fram í þessari úttekt sem er svolítið brýnt að bregðast við með einhverjum hætti og er kannski eðlilegast að löggjafinn geri með skýrum lögum. Þarna kemur fram gagnrýni á umgjörð Fjármálaeftirlits. Það er sett stórt spurningarmerki við það í þessari úttekt hvort réttaröryggi og réttlát málsmeðferð sé tryggð þegar fjármálaeftirlitsnefnd beitir sínu stjórnsýsluvaldi og tekur ákvarðanir sem geta verið íþyngjandi fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Þetta er hlutverk sem er í raun eðlisólíkt þeim hlutverkum sem hinar nefndirnar fara með þannig að það er kannski sérstaklega mikilvægt þarna að það sé alveg á hreinu hverjar valdheimildirnar eru nákvæmlega. Ég vil að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það séu einhverjar sérstakar ráðstafanir sem hún sér fyrir sér til að tryggja réttaröryggi og tempra það vald sem fjármálaeftirlitsnefndin fer með og stjórn Fjármálaeftirlitsins fór áður með.