152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

starf Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laga nr. 92/2019.

162. mál
[13:55]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Gaman að ræða þessi mál á vettvangi þingsins. Ég ætla að einbeita mér að Fjármálaeftirlitinu, þeim þætti þessarar skýrslu. En áður en ég vind mér í það vil ég segja nokkur orð um það sem lýtur að peningamálum, og þá kannski helst að ég held að okkur Íslendingum hafi farnast mjög vel við stjórn peningamála eftir að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gerðu árið 2009 það sem hægri flokkunum hafi aldrei dottið í hug; að tryggja raunverulegt sjálfstæði Seðlabankans með annars vegar peningastefnunefnd, með því að koma á fót svoleiðis fyrirkomulagi, og með því að kveða á um faglega skipan æðstu stjórnenda í Seðlabankanum. Þarna var loksins verið að tryggja raunverulegt sjálfstæði Seðlabankans og peningamálastjórnunar á Íslandi. Systurflokkar okkar hafa alla jafnan verið í því hlutverki að ná fram sams konar breytingum í nágrannalöndunum. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þessar breytingar hafi átt mjög stóran þátt í að tryggja efnahagslegan stöðugleika síðustu 12 árin. Þetta er að einhverju leyti óumdeilt vegna þess að enginn sá neina ástæðu til að gera neinar grundvallarbreytingar á þessu fyrirkomulagi, fyrirkomulagi peningastefnunefndar og starfa hennar, þegar ný lög um Seðlabankann voru samþykkt hérna 2019.

Eins og ég nefndi áðan þá tekur sú úttekt sem við ræðum hér í dag til reynslunnar á tveggja ára tímabili. Margar af þeim spurningum sem velt er upp í skýrslunni eru þess eðlis að það er engin leið að svara þeim almennilega fyrr en eftir nokkur ár, þannig að við skulum ekki vera of fljót að fagna sigri, það að liggur ekki fyrir nein staðfesting á því að þetta sé hið rétta fyrirkomulag. Við þurfum bara halda áfram að endurmeta þetta reglulega og skoða hvað er að gerast í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þetta gildir t.d. um þær vangaveltur sem snúa að því að það geti falið í sér orðsporsáhættu að vera með fjármálaeftirlit og stjórnun peningamála í einni og sömu stofnuninni. Það segir t.d. í inngangi úttektarinnar, með leyfi forseta:

„Við þinglega meðferð Seðlabankalaganna kom fram það sjónarmið að orðspor Seðlabankans kynni að bíða hnekki ef fjármálaeftirlitsstarfsemi yrði flutt til bankans. Í máli langflestra viðmælenda úttektarnefndarinnar kom hins vegar fram að áhyggjur af orðspori Seðlabankans hafi ekki raungerst og að þær hafi verið ofmetnar.“

Það liggur alveg í hlutarins eðli að það er allt of snemmt núna tveimur árum seinna að fullyrða eitthvað um þetta.

Höldum okkur við fjármálaeftirlitsþáttinn. Árið 2017 setti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fram nokkuð harðorða gagnrýni á stofnanaumgjörð fjármálaeftirlits á Íslandi. AGS viðraði áhyggjur af því að starfsemi Fjármálaeftirlitsins væri einhvern veginn of háð pólitíkinni hverju sinni. Ég ætla að vitna orðrétt í yfirlýsingu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, með leyfi forseta:

„Fjármálaeftirlitið is not sufficiently insulated from the political process …“

Á þessum tíma var Fjármálaeftirlitið auðvitað sjálfstæð stofnun, þ.e. hún var ekki undir Seðlabankanum. Stjórn stofnunarinnar, sem gegndi þá lykilhlutverki við ákvarðanatöku um rannsókn efnahagsbrota á Íslandi, var öll skipuð af einum og sama ráðherranum, sem var auðvitað mikilvirkur í viðskiptum fyrir hrun og hafði reyndar einmitt sjálfur flækst aðeins inn í mál sem höfðu verið til rannsóknar hjá Fjármálaeftirlitinu á sínum tíma. En gott og vel. Fyrsti aðilinn sem þessi hæstv. ráðherra skipaði sem stjórnarformann Fjármálaeftirlitsins þurfti svo að láta af stjórnarformennsku ári seinna eftir að fjölmiðlar fjölluðu um viðskipti viðkomandi sem orkuðu tvímælis.

Nú er öll þessi stofnanaumgjörð gjörbreytt. Það er búið að renna Fjármálaeftirlitinu undir Seðlabankann. En það er samt enn þá þannig að fjármálaráðherra skipar meiri hluta fjármálaeftirlitsnefndar, sem fer með sams konar hlutverk og stjórn Fjármálaeftirlitsins fór með áður. Þarna erum við að tala um stjórnsýsluvald sem varðar einstaklingsbundna hagsmuni, eins og við fórum yfir hérna áðan. Þetta eru t.d. ákvarðanir um að höfða dómsmál, þetta eru ákvarðanir um beitingu dagsekta og févítis, ákvarðanir um hvort kæra skuli ákveðin viðskipti eða viðskiptahætti til lögreglu, til saksóknara o.s.frv. Og enn í dag vakna auðvitað spurningar um hæfi nefndarmanna í svona fyrirkomulagi. Nefnt er í úttektinni að komið hafi fram í viðtölum úttektarnefndarinnar að einn af nefndarmönnum fjármálaeftirlitsnefndar sé skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu og þess vegna gætu sprottið upp spurningar um vanhæfi vegna eignarhluta ríkissjóðs í tveimur af þremur viðskiptabönkum.

Þetta er svona eitt af því sem bent er á þarna. Mér finnst það ágæt hugmynd, sem kemur fram í úttektinni, að sett verði inn í lög um Seðlabankann ákvæði um skipun varamanna fyrir ytri nefndarmenn í nefndunum þremur og sérstaklega þá í fjármálaeftirlitsnefnd, því að það er kannski sérstaklega þar sem vaknað geta áleitnar spurningar um hæfi í ljósi þess hvernig hlutverk það er sem nefndin fer með, sem varðar t.d. ákvarðanir sem geta verið íþyngjandi gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum, sértækar stjórnsýslulegar ákvarðanir.

Annað sem er bent á þarna og mér finnst hljóma skynsamlega er að í ljósi þess að ýmis verkefni nefndanna, í raun allra nefndanna sem við erum að tala um hérna, kalla á vandfundna sérfræðiþekkingu og þannig geti hugsanlega verið til bóta að auglýsa stöður ytri nefndarmanna, eða einhverjar af þeim alla vega, til þess að stuðla að fjölbreytni og að fagleg sjónarmið ráði nú örugglega för.

Í þessari úttekt er að finna ágæta yfirlitskafla þar sem fyrirkomulagið á Íslandi er borið saman við fyrirkomulagið í Englandi, Finnlandi, Írlandi, Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Ég sé ekki betur en að það sé hvergi nema hér á Íslandi þar sem fjármálaeftirliti er að öllu leyti komið fyrir innan seðlabanka og það er ekki alveg sjálfstæð eining. Það er kannski athyglisvert einmitt í þessu ljósi að þetta er fyrirkomulag sem er svolítið öðruvísi en það sem nágrannalöndin hafa komið sér upp, af þessum þremur nefndum; peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd, þá er það bara fjármálaeftirlitsnefnd sem er að meiri hluta til skipuð ytri nefndarmönnum, skipuð fólki sem hefur ekki farið í gegnum þetta nálarauga, þetta hæfnismat sem þarf að komast í gegnum til að verða seðlabankastjóri eða varaseðlabankastjóri. Þannig að ég velti strax fyrir mér hvort það væri ekki t.d. bara til bóta að fækka ytri nefndarmönnum þannig að þessi hlutföll séu a.m.k. þau sömu í öllum þessum þremur nefndum.

Svona í ljósi alls þessa þá veltir maður því fyrir sér hvort þau orð sem ég vitnaði til hérna áðan í yfirlýsingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, „Fjármálaeftirlitið is not sufficiently insulated from the political process“, eigi kannski að einhverju leyti enn þá við og hvort það sé ekki hægt að gera enn betur núna þegar við endurmetum þetta fyrirkomulag og breytum því til hins betra næst. Því að ef það er einhver starfsemi sem ætti að vera sérstaklega mikilvægt að „insúlera“ fyrir pólitíkinni, ef svo má segja, þá er það auðvitað sú starfsemi sem liggur hjá fjármálaeftirlitsnefnd þar sem teknar eru þessar sértæku einstaklingsbundnu stjórnsýsluákvarðanir.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í dag og þakka fyrir þessa ágætu umræðu.