152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

starf Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laga nr. 92/2019.

162. mál
[14:44]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka líka fyrir þessa skýrslu sem við í efnahags- og viðskiptanefnd fórum fram á að yrði unnin til að fylgjast með þróun þessara mála. Ég sat í hv. efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta kjörtímabili og þetta var eitt af okkar stóru málum sem fór töluverður tími í að vinna.

Ég ætla að taka undir með hv. þm. Óla Birni Kárasyni sem talaði hér áðan. Þetta mál var mjög vel undirbúið þegar það kom inn í nefndina. Málið var tekið fyrir í nefndarstörfum og var búið að rýna mjög margt í því. En eins og okkur á öllum að vera ljóst þegar um er að ræða breytingar af einhverjum toga, eins og sameining tveggja stofnana í þessu tilfelli, þá eru auðvitað uppi skiptar skoðanir og aðeins ólík sjónarmið.

Virðulegur forseti. Mér þótti hugmyndin alltaf býsna góð, þ.e. að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Þetta var gert til að efla eftirlitsþáttinn og tryggja heildaryfirsýn yfir þessa málaflokka. Við vorum töluvert upptekin af því í nefndinni og umræða í kringum þetta gekk svolítið út á reynslu okkar af bankahruninu þegar öllum var ljóst að Fjármálaeftirlitið væri mjög veikburða til að sinna eftirliti. Þekktar eru sögurnar af því þegar lögfræðiteymi bankanna mættu á fund Fjármálaeftirlitsins þar sem sátu ágætir embættismenn sem höfðu ekkert í lögfræðingastéttina sem mætti þar fyrir hönd bankanna. Þetta var eitt af þessum dæmum en þetta snerist auðvitað um meira, þ.e. um fjármálakerfið okkar, fjármálastöðugleikann. Það sem var kannski helsta áhyggjuefni okkar í nefndinni á sínum tíma var hversu gríðarlega mikið vald væri komið til einnar sjálfstæðrar stofnunar. Auðvitað eru þessar nefndir hluti af því að reyna að valdtempra þetta.

Mér þykir bara gott að sjá það hér að í öllum meginatriðum hefur þetta gengið vel. Við eyddum heilmiklum tíma, aðallega í atkvæðaskýringum hér áðan, í að ræða breytingu í Stjórnarráðinu. Þá voru uppi stór orð um stækkun báknsins og hvað þetta myndi allt kosta og að illa væri staðið að þessu öllu saman. Málið sem hér um ræðir — því að við vorum að tala um að færa Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann saman í eina stofnun — var mjög vel undirbúið. Það gekk út á að fækka stofnunum. Það var engu að síður svo að minni hlutinn var þá allur á móti þessu máli og þá áttu klárlega ekki við nein slík rök. Reyndar var það þannig að í nefndaráliti 2. minni hluta í efnahags- og viðskiptanefnd var vinnunni í nefndinnni og undirbúningnum hrósað en einn flokkur, Miðflokkurinn, studdi málið ekki í ljósi þess að einhverjum spurningum væri ósvarað. En ég tek bara undir hvatningu til þess að efnahags- og viðskiptanefnd fái kynningu á þessari skýrslu og fylgi málinu eftir og þeim ábendingum og athugasemdum sem þarna koma fram.

Í þessum efnum langar mig til að nefna mál sem ég nefndi líka þegar við vorum að fjalla um þetta á sínum tíma. Okkur hættir svo oft til að horfa til fortíðarinnar, sem er mikilvægt og við eigum alveg að læra af fortíðinni. En ég er t.d. algerlega handviss um að við munum ekki upplifa hrun sambærilegt því sem við upplifðum með bankahruninu. Með því er ég ekki að segja að alls konar hlutir geti ekki gerst. En það verður örugglega á öðrum forsendum því að við erum búin að byggja undir allt sem þar misfórst. Þeim mun mikilvægara er einmitt að svona öflug stofnun eins og hér um ræðir, Seðlabankinn með fjármálastöðugleikanefnd, fjármálaeftirlit og alla þá þætti sem þar eru, horfi til framtíðar og hvaða framtíðaráskoranir kunni að verða. Ég nefni sem dæmi rafeyri, framtíð bankaviðskipta, við fjölluðum t.d. mikið um smálánafyrirtæki á síðasta kjörtímabili og fjármálaeftirlit með því og þess háttar.

Ég vil því líka hvetja til þess þegar við ræðum þennan eftirlitsþátt að við séum ekki bara að horfa í baksýnisspegilinn heldur einmitt að horfa fram á við, bæði hvaða tækifæri og líka hvaða ógnanir kunni að vera í framtíðinni.