152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

starf Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laga nr. 92/2019.

162. mál
[14:49]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir skýrslu úttektarnefndarinnar. Ég er fyrrverandi starfsmaður Fjármálaeftirlitsins, ég starfaði hjá því árin 2006–2007 og fór þá til saksóknara efnahagsbrota. Þessi skýrsla og þessar breytingar eru náttúrlega til komnar vegna hrunsins og við erum enn þá að fjalla um eftirstöðvar hrunsins að mörgu leyti. Ég er algerlega sammála því að fjármálaeftirlitshlutinn á heima í Seðlabankanum. Hann var þar áður undir nafninu bankaeftirlit og tryggingaeftirlit. Það sem skiptir máli í þessu, í öllum stofnunum, er að ábyrgð yfirmanns stofnunarinnar sé skýr og að hann sé hæfur, ekki ráðinn pólitískt, ekki ráðinn á grundvelli flokkstengsla heldur eingöngu á grundvelli hæfileika. Það var klárlega ráðið í stjórn Fjármálaeftirlitsins á sínum tíma á grundvelli flokksskírteina en ekki hæfileika. Ég upplifði það sjálfur. Það sem er líka grundvallaratriði er að menningin innan vinnustaðar þarf að vera þannig að það sé þor til að taka erfiðar ákvarðanir. Í vinnu minni í Fjármálaeftirlitinu, m.a. á fundum með bönkunum fyrir hrun, þá nötraði allt og skalf við að maður spurði erfiðra spurninga mín megin. Svo fór ég til saksóknara efnahagsbrota og þar var allt annað í gangi, enda var þar líka um sakamál að ræða.

Það eru þrjár nefndir taldar upp í skýrslunni: Peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og svo fjármáleftirlitsnefnd. Ég tel að peningastefnunefnd og fjármálastöðugleikanefnd séu gjörólíkar fjármáleftirlitsnefndinni. Fjármálaeftirlitið er gjörólíkt í eðli sínu varðandi starf hinna tveggja nefndanna. Það kemur fram í skýrslunni að allar ákvarðanir eiga að taka hjá fjármálaeftirlitsnefnd, ekki bara meiri háttar ákvarðanir eins og var í stjórn Fjármálaeftirlitsins sínum tíma. Þá réði stjórn Fjármálaeftirlitsins forstjóra, eins kemur fram í skýrslunni. Það er reyndar þannig núna að fjármálaeftirlitsnefndinni er heimilt að framselja ákvörðunarvald til varaseðlabankastjóra þegar ekki er um meiri háttar mál að ræða og það er vel að það sé þannig. Ég tel að horfa verði að á fjármálaeftirlitsnefndina og þennan hluta af starfi Seðlabankans allt öðrum augum en hinar tvær nefndirnar og hina tvo þættina. Ég tel það eigi að vera varaseðlabankastjóri sem er yfirmaður, skýr yfirmaður fjármálaeftirlitsinshlutans og að hann fari með svipuð völd og forstjóri og hafi heimild til að taka allar ákvarðanir nema kannski meiri háttar ákvarðanir. Þá fari það upp til fjármálaeftirlitsnefndar, það er hægt að kalla það það, eða stjórnar Fjármálaeftirlitsins, fjármálaeftirlitshlutans, og að þetta sé rekið eins og sérstök eining innan Seðlabankans hvað varðar almennt eftirlit, eins og hjá öðrum eftirlitsstofnunum. Þetta er algerlega ómögulegt, eins og segir á blaðsíðu 32 í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Sem fyrr segir er ákvörðunarvaldi í öllum málum sem heyra undir fjármálaeftirlit nú vísað til fjármálaeftirlitsnefndar í stað þess að áður voru það bara meiri háttar ákvarðanir sem fóru á borð stjórnar Fjármálaeftirlitsins, og forstjóri eða starfsmenn stofnunarinnar tóku þá ekki ákvörðun um.“

Ég tel að þessi hluti í starfi gamla Fjármálaeftirlitsins hafi verið nokkuð góður, þ.e. að forstjóri og starfsmennirnir tóku allar ákvarðanir. Meiri háttar ákvarðanir sem væru stefnumótandi ættu þá að fara til fjármálaeftirlitsnefndarinnar sem hefur þá eftirlit, og það væri þá ekki nefnd sem væri mjög virk í starfi fjármálaeftirlitshlutans. Það er grundvallaratriði að yfirmaður Fjármálaeftirlitsins, aðstoðarforstjórinn, hafi þekkingu, yfirburðaþekkingu, og líka myndugleika og þor til að taka erfiðar ákvarðanir. Það sama á við um deildarstjórana sem eru undir. Og að menn séu tilbúnir til að fara með mál fyrir dómstóla ef svo ber undir.

Ég get alveg komið með margar sögur af minni reynslu. Ég var í peningaþvættismálunum á þessum tíma og var m.a. í þriðju úttekt FATF á Íslandi og fór síðan til saksóknara efnahagsbrota varðandi eftirfylgnina og var að vinna í þeim málum. Ég á nú reyndar að halda fyrirlestur á Bifröst um peningaþvætti núna í febrúar. Get kannski sent ykkur glærurnar ef áhugi er á því. En það er ekki málið. Eftirfylgnin á þeim hluta var alger hörmung. Ísland var sett á lista með þjóðum sem við eigum ekki á nokkurn hátt að vera í klúbbi með, svokallaðan svarta lista hjá FATF, í nokkur ár og ég efast um að orðspor okkar sé búið að ná sér eftir það hvað varðar peningaþvætti.

Ég tel að við eigum í stofnunum eins og Fjármálaeftirlitinu að hafa náið samstarf við fjármálaeftirlit á Norðurlöndunum og jafnvel gætu komið inn menn af erlendu bergi brotnir og tjáð sig á ensku. Það er spurning hvort skjöl væru þá að hluta til á ensku. Það er grundvallaratriði að íslenskt fjármálaeftirlit og fjármálakerfi tengist norræna bankakerfinu, norrænu fjármálakerfi. Það myndi auka samkeppni. Það ætti að vera svo skýrt markmið íslenskra stjórnvalda að tengja íslenskan bankamarkað erlendum bankamarkaði og þá hinum norræna, sem er sá besti í heimi. Hann er eiginlega undirstaða velmegunar í þessum ríkjum.

Ég myndi leggja til að þessi hluti — og ég ætla ekkert að tjá mig um hina hlutana — varðandi fjármálaeftirlitsnefnd og fjármálaeftirlitshluta verði tekinn til gagngerrar endurskoðunar, að það verði skoðað hvað var gott í Fjármálaeftirlitinu, gömlu stofnuninni, og hvernig sé hægt að auka sjálfstæði starfsmanna, deildarstjóra og forstjóra, þá varaseðlabankastjórans, gagnvart ytri öflum. Það var ótrúlegur munur á menningunni sem ég fór úr í Fjármálaeftirlitinu fyrir hrun, ég fór vorið 2007, og ég gekk inn í hjá efnahagsbrotadeild. Það vissu allir hvað málin gengu út á hjá efnahagsbrotadeild. Þetta voru sakamál í rannsókn sem stundum fóru fyrir dómstóla, eftir því hvort þau voru líkleg til sakfellingar eða ekki, og allir mótaðilar vissu út á hvað þetta gekk allt saman. En það var bara ekki þannig í Fjármálaeftirlitinu. Ég get tekið dæmi. Maður þurfti að sitja morgunfundi af því að það átti að taka íþyngjandi ákvörðun hjá Fjármálaeftirlitinu og þá var efast um gildi ákvörðunarinnar, hvort hún hefði heimild og það var verið að fara fram á lagabreytingar, hvort það væri rétt að gera þetta svona og jafnvel að Fjármálaeftirlitið hefði ekki heimild til að gera þetta og að það þyrfti að hafa öflugra eftirlit með þeim valdheimildum stofnunarinnar.

Ég legg til og tel mjög mikilvægt að þessir hlutir verði skoðaðir mjög náið. Það er alveg gríðarlega mikilvægt að það þar sé hæft fólk. Við getum haft hvaða kerfi sem er en ef það er meðvirkni innan stofnunarinnar, innan fjármálaeftirlitshlutans, með þeim bönkum sem á að hafa eftirlit með þá er alveg eins gott að sleppa þessu. Ég get tekið dæmi. Þetta eru oft ekkert flókin úrlausnarefni. Ég tekið Icesave sem dæmi. Það var reyndar ekki beint Fjármálaeftirlitið sem átti það. Það segir í 4. mgr. 36. gr. laga um fjármálafyrirtæki að það sé heimilt að stofna útibú utan Íslands. IMF, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, fór á sínum tíma fram á að sett yrði bannákvæði vegna smæðar íslenska kerfisins. Það var hægt að banna út frá fjármálastöðugleika og stjórnunar í bönkunum. Það hefði leikandi verið hægt að banna stofnun útibúa í London á sínum tíma. Þessi útibú voruð stofnuð í október 2006 og það var í kjölfar skýrslnanna sem komu, kallað litla krísan, sem var skýrsla frá Fitch Raitings, Danske Bank, skýrslan um Geyser Crisis, þá frusu allir erlendir fjármálamarkaðir fyrir Íslandi. Lausnin á þessari litlu krísu var Icesave þar sem var farið út í heim og stofnaðir internetbankar. Íslenska ríkið hefði átt að stoppa það. En það var, eins og það er kallað í einni bók, „The year of no return“. Eftir 2006, af því að þetta var leyft, var alveg augljóst mál og bara tímaspursmál hvenær þetta myndi allt hrynja. Það mál sýnir ákveðinn veikleika í kerfinu. Ég er ekki að segja að Fjármálaeftirlitið hefði getað stoppað það, en það fór líka upp til ráðherra. Það hefði leikandi verið hægt að stoppa það og stoppa það þannig að þetta hefði orðið opinbert og þeim gert skylt þá um haustið að taka til í sínum málum. En það var ekki gert og því fór sem fór.

Ég lít á þannig á, það er mín persónulega skoðun — það hafa verið skrifaðar bækur um það, að hrunið hafi verið erlendum aðilum að kenna — að efnahagshrunið í október 2008 hafi verið stjórnkerfisbrestur að stórum hluta. Það er margt sem spilar þar inn í, bæði stjórnkerfið sjálft og alger útilokun á gagnrýnum skoðunum. Ég man svo vel þegar Geyser Crisis-skýrslan kom út 21. apríl 2006, eftir Lars Christensen og félaga hans í Danske Bank, en í skýrslunni segir: Eina vandamál okkar er að tímasetja hrunið. Ég skora bara á alla að gúgla það, þetta er allt á netinu. Það var eina vandamálið hjá þeim. En svo voru menn að koma hingað og segja að það væri að fara að koma hrun og þeim var bent á að fara í endurmenntun og annað slíkt.

Það er mjög mikilvægt, líka innan þessarar stofnunar, og ég reyndi það fyrr í dag, að vera opinn fyrir gagnrýni. Það er það sem skiptir máli. Allar vísindakenningar byggja á hrekjanleika og allar ákvarðanir þurfi að byggja á hrekjanleika, það verður að vera hægt að hrekja þær, þær þurfa að standast þessa hrakningu, eða „devil's advocate“. Það var það sem við notuðum í efnahagsbrotadeild, af því að það er betra að láta slátra sér heima eða láta fara illa með sig heima en í dómsalnum í sakamálum í efnahagsbrotum.

Það er þannig sem svona stofnanir eigi að vinna, vera treyst, vera opnar fyrir allri gagnrýni, geta svarað og prófa ákvarðanir sínar gagnvart mikilli gagnrýni. Það sama á Alþingi að gera. Þetta kallar á mjög opið viðhorf gagnvart skoðunum annarra og öllum skoðunum sem koma að utan. Það er alveg klárt mál að fjármálakerfi Íslands þarf að opna gluggann fyrir álitum og skoðunum að utan og ekki síst fjármálaeftirlitshlutinn.

Ég myndi gjarnan vilja tala lengur um þetta en ég tel að þessi hluti þurfi mjög nákvæmrar skoðunar við. Samkvæmt reynslu minni bara sem borgari í samfélaginu held ég að peningastefnunefnd sé að mörgu leyti mjög þörf og hafi staðið sig vel, það er fróðlegt að lesa skýrslu þaðan, en fjármálastöðugleikanefnd síður. Það er mjög gott að það sé opin umræða í samfélaginu um allar þessar nefndir. Ég held að það þurfi að skoða fjármálaeftirlitsnefndina, þann hluta sem er hérna undir, mjög vel og jafnvel leita álits frá erlendum sérfræðingum.