152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

skattar og gjöld.

211. mál
[15:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég vil taka til máls í 2. umr. um þetta mál til að koma að tveimur, þremur örstuttum athugasemdum. Um er að ræða mál frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, en það er form á frumvörpum sem við höfum oft rætt í þessum sal að þurfi að umgangast varlega þar sem slík mál sæta ekki jafn mikilli rýni og ráðherrafrumvörp sem fá fullar þrjár umræður, tíma í nefnd á milli umræðna og umsagnarfrest. Mælt var fyrir þessu máli í gær og það gekk beint til 2. umr. án viðkomu í nefnd. Það hefur ekki verið sent til umsagnar, eins og venja er með nefndarfrumvörp. Þess vegna tel ég eðlilegt að við einskorðum þetta form við leiðréttingar, við óumdeilda villuprófun á lögum, eins og við sjáum t.d. gert í 3. og 4. gr. þessa frumvarps. Þar kom í ljós að lög, sem samþykkt voru hér 17. janúar, þyrfti að laga. Eins og stendur í greinargerð láðist að aðlaga orðalag að breytingu sem var gerð annars staðar í frumvarpinu og það fórst fyrir að leggja til sömu breytingu á 2. gr. frumvarpsins. Eftir stóðu því textabútar sem ekki voru í samræmi við breytingar sem höfðu verið gerðar annars staðar í frumvarpinu og það er alveg eðlilegt að nefnd taki að sér að hleypa slíkum breytingum í gegn með hraði. Hins vegar vekur það vissa eftirtekt vegna þess að frumvarpið sem þessar tvær villur urðu í var afgreitt hér með mjög miklu hraði 17. janúar síðastliðinn og þá var gagnrýnt að ekki hefði verið brugðist fyrr við með því að leggja það annaðhvort fram í desember, þegar fyrst var farið að ræða um nauðsyn þess að fresta staðgreiðslu opinberra gjalda, eða boða einfaldlega þingfund aðeins fyrr, kannski viku fyrr þegar þingmenn mættu almennt til nefndarstarfa. Þær villur sem hér er verið að leiðrétta hefði því mögulega verið hægt að koma í veg fyrir með því einfaldlega að gefa þinginu meiri tíma til að vinna málið upphaflega.

Því tengt er áhugavert að skoða 1. gr. frumvarpsins þar sem aftur er verið að laga dagsetningu. Við afgreiðslu bandormsins í tengslum við fjárlög núna í desember var einfaldlega vitlaus dagsetning sett inn, 1. júlí var settur inn en átti að vera 1. janúar. Þetta er mjög klár leiðrétting sem grípa þarf til en dálítið kúnstug í ljósi þess að einmitt þegar þetta frumvarp sem 3. og 4. gr. snúast um var til umræðu beitti fulltrúi Pírata í efnahags- og viðskiptanefnd sér t.d. fyrir því að þar yrði miðað við aðra dagsetningu en um var að ræða varðandi frestun opinberra gjalda; að fyrirtækjum yrði í rauninni veitt afturvirk heimild til að fresta gjöldum, að miðað væri við 1. janúar þessa árs en ekki 17. janúar eins og var í frumvarpinu. Á þetta var ekki fallist í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem um væri að ræða afturvirka lagasetningu sem þó er réttlætanlegt að samþykkja þegar um er að ræða ívilnandi lagasetningu. Þess vegna má segja að það kveði við nýjan hljóm í efnahags- og viðskiptanefnd í þessari 1. gr. frumvarpsins þar sem afturvirkni lagasetningar virðist núna í lagi.

En það sem mig langar kannski aðallega að ræða er 2. gr. frumvarpsins sem snýst um ívilnanir til húsbíla vegna losunar þeirra á gróðurhúsalofttegundum. Þá langar mig aðeins að fara yfir forsögu þess máls. Sú villa sem meiri hluti nefndarinnar telur sig vera að leysa kom einmitt upp þegar Alþingi samþykkti undir lok síðasta árs lög nr. 133/2021, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, tekjubandorminn svokallaða. Þá var breyting í 16. gr. þess frumvarps sem virðist hafa falið í sér þau mistök sem 2. gr. frumvarpsins sem við ræðum hér í dag er ætlað að leiðrétta. Í 16. gr. tekjubandormsins segir að 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. skuli breytast á þann veg að vörugjald fólksbifreiða og annarra vélknúinna ökutækja skuli einungis miðast við samræmdu prófunaraðferðina við ákvörðun vörugjalds en ekki eldri mælingaraðferðina, evrópsku aksturslotuna. Þetta eru tvær aðferðir sem við höfum rætt nokkrum sinnum hér í sal og ekki að ósekju þar sem það skiptir dálítið miklu máli að við skiptum úr eldri aðferðinni, evrópsku aksturslotunni, eða NEDC, eins og hún er skammstöfuð upp á ensku. Evrópska aksturslotan er mælingaraðferð sem rekur sögu sína aftur til 8. áratugar síðustu aldar og er mjög einföld eða gróf mæling á losun ökutækja á gróðurhúsalofttegundum sem stuðst hefur verið við í nokkra áratugi. En í byrjun þessarar aldar var orðið ljóst að hún dygði ekki lengur til og þá var byrjað að vinna að því sem heitir samræmda prófunaraðferðin, eða WLTP upp á ensku. Síðan gerðist það fyrir nokkrum árum að breytingin varð miklu brýnni. Augljósara varð hversu brýnt væri að skipta út aðferðum vegna þess að evrópska aksturslotan gat allt of auðveldlega verið misnotuð til að sýna falskar mælingar. Það kom í ljós í svokölluðu dísilgate-hneyksli þar sem framleiðendur ökutækja, og þar bar kannski hæst Volkswagen, fölsuðu hreinlega niðurstöður í því skyni að koma bílunum sínum undir ákveðin viðmiðunarmörk í vörugjaldalöggjöf landanna þar sem ökutækin voru síðan seld. Með þessu gerist náttúrlega ýmislegt sem snertir almannahagsmuni. T.d. er farið á svig við mengunarbótaregluna sem hefur í síauknum mæli verið innleidd í gjaldtöku á ökutækjum. Gjaldtaka sem hefur verið mótuð þannig að hún styðji við orkuskipti með því að ívilna bílum eftir því sem þeir losa minni koltvísýring endurspeglaði því ekki lengur raunverulega losun bílanna með fölsuðu tölurnar. Þeir skiluðu þá líka minna í ríkissjóð þeirra ríkja þar sem sala þessara ökutækja var mest og þau ríki voru oft búin að eyrnamerkja vörugjöld sem grænan tekjustofn sem væri þá eyrnamerktur í tiltekin verkefni á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Dieselgate hafði því bein áhrif á slagkraft ríkja til að taka á loftslagsmálum af því afli sem þau vildu. Vegna þessa var spýtt í lófana og samræmda prófunaraðferðin tekin upp. Hún er betri að því leytinu að erfiðara er að svindla á henni og líka því að hún tekur tillit til fleiri þátta. Hún endurspeglar miklu betur þau umhverfisáhrif sem eru af akstri ökutækja.

Síðan gerðist það hér á 149. löggjafarþingi að lagt var fram frumvarp sem varð að lögum nr. 117/2018 sem var ætlað að bregðast við breytingunum sem urðu á skráðri losun nýrra bíla þegar horfið var frá eldri aðferðinni, evrópsku aksturslotunni, yfir í hina nýrri, samræmdu prófunaraðferðina. Það sem ég er farinn að velta fyrir mér er hvort við þurfum að grafa aðeins ofan í hvort þar hafi hreinlega verið gerð mistök þar sem í greinargerð þess frumvarps kemur fram að því hafi ekki verið ætlað að auka álagningu vörugjalds, og þar með tekjur ríkissjóðs af gjaldinu, sem er dálítið skrýtið markmið þegar einhver þeirra ökutækja sem vörugjaldið leggst á voru mögulega í gamla kerfinu, bara með falskar tölur, og því eðlilegt þegar tölurnar endurspegla raunverulega losun að gjöld á ákveðnum ökutækjum myndu hækka. Þannig að ég velti fyrir mér hvort þarna hafi sloppið í gegnum nálaraugað hjá þinginu breyting sem ekki gekk nógu langt og endurspeglaði í rauninni ekki þörfina sem var fyrir breytingum á milli aðferða við mælingu á losun koltvísýrings.

En að þeirri breytingu sem er í 2. gr. þessa frumvarps sérstaklega. Þar er lagt til að bæta nýrri málsgrein við XVIII. bráðabirgðaákvæði laga um vörugjald af ökutækjum. Það ákvæði fjallar um tímabundna lækkun á skráðri losun húsbíla — við erum því komin í mjög afmarkað svið ökutækja — hafi losun einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunarferðinni. Þetta ákvæði var fyrst sett í lög með samþykkt laga nr. 33/2020. Ákvæðið var ekki í frumvarpi ráðherrans sjálfs heldur var því bætt við í tillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Í nefndarálitinu er viðbótin rökstudd þannig að hún hafi verið sett inn í kjölfar ábendingar Samtaka ferðaþjónustunnar sem taldi óheppilegt að húsbílar sættu stórauknum álögum í formi vörugjalds samhliða upptöku nýs alþjóðlegs staðals um mælingu á losun ökutækja.

Það má alveg staldra við og spyrja aftur: Ef losunin var bara miklu meiri en framleiðendur sögðu upphaflega, hefðu þá gjöldin ekki átt að hækka? Meiri hlutinn taldi nauðsynlegt að finna betri varanlega lausn en tímabundið lagði hann til þá reddingu, sem birtist í bráðabirgðaákvæðinu, að lækka skráða losun húsbíla um 40% á meðan slík lausn yrði fundin. Í þessu samhengi er eitt sem má kannski nefna sérstaklega og það er að í þingmáli 450 á 150. löggjafarþingi, þar sem efnahags- og viðskiptanefnd lagði til að bæta við þessu bráðabirgðaákvæði, er engin skrifleg umsögn frá Samtökum ferðaþjónustunnar og ekki að sjá að sérstakt mat hafi verið lagt á áhrif þessarar breytingartillögu á fjárhag ríkissjóðs, á breytingar í losun samfélagsins, á nokkurn hlut, annað en að þarna hafi Samtök ferðaþjónustunnar, hagsmunaaðili ökutækjaleiganna sem væntanlega eru stærsti kaupandi húsbíla, bara bent nefndinni á, svona þeirra á milli, að þessu mætti breyta. Þetta, frú forseti, held ég að geti varla talist góð vinnubrögð.

Það sama virðist síðan uppi á teningnum með nefndarfrumvarpið sem við höfum í höndunum í dag. Það er óljóst hvers vegna valið er að halda þessu ákvæði til streitu. Rökstuðninginn skortir. Þetta ákvæði er þess eðlis að kannski hefði verið betra að fá það fram frá ráðherra með þeim rökstuðningi og þeim faglega undirbúningi sem fylgir því að fara með mál í gegnum ráðuneyti, til þess líka að breytingin færi í gegnum umsagnarferli hjá þingnefnd og til þess líka að hægt væri að spyrja ráðherrann — vegna þess að í greinargerð nefndarinnar stendur um ákvæðið að því hafi verið ætlað að bregðast við millibilsástandi þar til komist yrði að varanlegri niðurstöðu um álagningu vörugjalds á húsbíla — ef ráðherra hefði lagt þetta mál fram hefði náttúrlega verið eðlilegt að spyrja hann: Nú eru tvö ár liðin, hvenær er von á varanlegri niðurstöðu? Hvað er langt í hana? Nei, þessi tímabundna bráðabirgðalausn er búin að vera í lögum í næstum tvö ár og enn þá bólar ekkert á þeirri varanlegu lausn sem þáverandi meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lofaði. Sú staðreynd að hér sé stefnt að því framlengja ákvæðið um heilt ár segir okkur eiginlega að að öllum líkindum sé lítið að frétta af varanlegri lausn.

En í frumvarpi sem kemur frá nefnd og hlýtur þar af leiðandi ekki fulla vandaða þinglega meðferð, eins og frumvörp sem ráðherrar leggja fram, er mjög bagalegt að gera ekki bara leiðréttingar, eins og er gert í 1., 3. og 4. gr. þessa frumvarps, heldur líka efnislegar breytingar eins og í 2. gr. þar sem ekki fylgir sögunni hvaðan frumkvæðið kemur að þeirri breytingu. Það fylgir ekki sögunni hvaða varanlegu lausnar fjármálaráðuneytið er að horfa til. Í rauninni finnst mér ekki koma nógu skýrt fram nokkur rökstuðningur til að réttlæta það að við framlengjum það sem gæti reynst vera einhver umhverfissóðaafsláttur þegar nánar er að gáð. Þetta er, að mér sýnist, það sem ég vildi sagt hafa, frú forseti, og lýk ég þá máli mínu bjöllulaust.