152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

skattar og gjöld.

211. mál
[15:23]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi frumvarpið, sem var klárað hér 17. janúar, þá vil ég alls ekki að hv. þingmaður skilji mig svo að ég sé að gagnrýna það að mistökin hafi átt sér stað og skrifi það einhvern veginn á nefndina vegna þess að þingið var sett í slíka stöðu. Við fengum frumvarpið til okkar á sama degi og þurfti að klára það vegna þess hvaða dagur var. Það sem ég er að gagnrýna er að þingið sé sett í þessa stöðu. Þar er ekki við hv. þingmann að sakast heldur ráðherrann sem hefði getað komið með málið fyrr til þingsins. Á því hefði verið betri bragur og þá hefðum við haft meiri tíma. Þá gerast svona mistök síður. Við vitum að það er mikill munur á því að vinna mál á einum degi langt fram á kvöld eða að fá þó ekki væri nema bara þrjá daga eða hvað það nú er, þá hefðum við fengið tíma til að vanda okkur betur og yfirvega málin.

Varðandi húsbílana þá er þetta ákvæði sem á sér tveggja ára sögu, en þetta er ákvæði sem aldrei hefur verið rýnt almennilega með t.d. grænu gleraugunum. Við erum með þessar tvær mælingaraðferðir vegna þess að ákveðnir framleiðendur voru umhverfissóðar, svindluðu á evrópsku aksturslotunni til þess að geta selt bílana sína ódýrar. Þannig svindluðu þeir á yfirvöldum sem urðu þar með af tekjum af gjöldum sem hefðu átt að falla á þessi tæki. Þeir svindluðu á umhverfinu og almenningi með því að fólk keypti tæki sem losuðu meiri koltvísýring en það bjóst við og skekktu alla samkeppnisstöðu af því að fyrirtækin sem skráðu lægri losun en raunlosun var gátu þar með selt tækin ódýrar en heiðarlegu fyrirtækin sem voru ekki að svindla á evrópsku aksturslotunni. Mig langar að spyrja hvort nefndin hafi skoðað það þannig að hv. þingmaður geti fullvissað okkur um að þessi breyting samrýmist umhverfissjónarmiðum (Forseti hringir.) og festi ekki í sessi einhverja skakka samkeppnisstöðu (Forseti hringir.) milli ökutækja eftir því hvort framleiðendur þeirra svindluðu eða svindluðu ekki í kringum „dísilgate“.

(Forseti (DME): Ég minni hv. þingmenn á að gæta tímamörkum. )