152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

253. mál
[15:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svona aðeins til að koma inn á lögmæti aðgerðanna, og þessar útlistingar á skoðunum mínum á því máli, þá er það þannig að fyrir síðustu herðingu samkomutakmarkana voru færð mjög skýr rök. Vísað var í spálíkan og talað um ákveðin markmið sem þyrftu að nást til þess að ástandið yrði viðráðanlegt. Ég hef sagt að í millitíðinni, frá því að sú ákvörðun var tekin, hafi komið í ljós að við erum að fást við miklu vægara afbrigði veirunnar og það hafi sýnt sig að þrátt fyrir miklu hærri tölur í smitum gangi spálíkanið ekki eftir. Þetta tel ég vera brostnar forsendur fyrir síðustu ákvörðun um herðingu á sóttvarnaráðstöfunum. Í millitíðinni hefur heilbrigðisráðherra síðan ákveðið að grípa til breytinga á sóttkvíarreglunum.

Þegar við reynum að úttala okkur um lögmæti aðgerðanna held ég að við séum að fást við dálítið vandasamt verk. Því er ágætlega lýst í álitsgerð Páls Hreinssonar frá því haustið 2020, þar sem hann fjallaði einmitt um það að dómstólar myndu líklega áskilja stjórnvöldum nokkuð rúmt svigrúm til að leggja mat á þessa hluti. Í mínum huga er ekkert tilefni til að fara í ágreining um það hvort forsendurnar eru til staðar eða ekki vegna þess að þetta liggur svo skýrt fyrir, annars vegar í minnisblaði sóttvarnalæknis og hins vegar í rauntölunum, því sem menn höfðu áhyggjur af að myndi raungerast og síðan því sem raunverulega gerðist. Því er í mínum huga ekkert efni fyrir ágreining hérna. En hvað varðar almennu viðspyrnustyrkina þá verð ég með það mál í ríkisstjórn í fyrramálið.