152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

253. mál
[15:40]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri í sjálfu sér ekki athugasemd við neitt af því sem fram hefur komið í máli hæstv. fjármálaráðherra. Við hljótum þó að líta það mjög alvarlegum augum og taka það mjög alvarlega ef það hefur gerst hér að í gildi hafi verið sóttvarnatakmarkanir sem við teljum að ekki hafi átt sér skýra lagastoð, þ.e. að skilyrði laganna hafi í raun brostið. Þá hljótum við kannski að skoða það að aflétta þeim takmörkunum og líka að velta fyrir okkur afleiðingunum sem þær hafa t.d. haft fyrir rekstraraðila.

Mér var svolítið brugðið á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun þegar það kom mjög skýrt fram að í raun gætu rekstraraðilar í veitingarekstri ekki vænst þess að fá neinn beinan fjárstuðning nú um mánaðamótin eða á allra næstu vikum. Það gefur auðvitað til kynna að þessi þingmál hafi verið að koma allt of seint fram. Skatturinn hefur ekki haft burði til að afgreiða umsóknir og greiða út styrkina nú þegar þörfin er mest. Önnur fyrirtæki sem verða fyrir höggi vegna sóttvarna eru í enn verri málum. Ég fagna því auðvitað að viðspyrnustyrkjafrumvarpið fari fyrir ríkisstjórn á morgun og ég vona að við getum tekið það til umfjöllunar hér í þinginu sem allra fyrst.

Við hljótum auðvitað að gera þá kröfu að ráðherra, sem er með miklar yfirlýsingar um að í raun sé verið að brjóta lög með sóttvarnatakmörkunum, og þar af leiðandi að brjóta á mannréttindum fólks, geri allt sem í hans valdi stendur til að bregðast við því ástandi á efnahagshliðinni, dempa höggið og beita til þess tækjum og tólum.