Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

253. mál
[16:08]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vildi rétt beina því til hæstv. fjármálaráðherra að þessi lög um viðspyrnu og stuðning eru neyðarlög, í raun byggð á þeim úrskurði Viðars Más Matthíassonar að það sé neyðarástand, force majeure, og neyðarástandið sem blasir við fjölmörgum þeirra sem hér er réttilega leitast við að koma til bjargar byrjar núna. Þess vegna lagði ég til að fela besta manni hæstv. fjármálaráðherra, hvort sem það er Hersir eða hvaða aðstoðarmaður eða verkefnastjóri sem það væri, að verja menn falli sem blasir við núna strax á mánudag, þriðjudag, þeir fái tiltrúna á það að súrefni þeirra sé þrátt fyrir allt nægilegt svo þeir fái að lifa en ekki að falla. Mánaðamótin eru fram undan og það blasir við gríðarlega tvísýn staða hjá mörgum sem höfðu kannski súrefni til slíks fyrir ári en hafa það ekki lengur. Þetta eru neyðarráðstafanir á neyðartímum sem við erum vonandi að sjá fyrir endann á. Það væri mjög sárt að sjá þá falla og fara kannski í gjaldþrot eða missa tiltrú bankans síns þegar menn gætu fengið það staðfest, eins og menn fá hjá Skattinum, að þeir séu rétt bærir í þennan flokk eða hinn. Ég vildi bara spyrja að því hvort við gætum ekki gripið til slíks af því að viljinn er klárlega til staðar og ástandið er viðurkennt, sem það er. Ég myndi eindregið mælast til þess að allir þessir sem hér hafa verið nefndir, veitingamennirnir, gistihúsaeigendurnir, menningarstarfsemin öll og stoðkerfin, hljóð- og ljósaleigurnar, sem eru á hnjánum, að niðurlotum komnir — að við myndum rétta þeim einhvers konar táknræna hjálparhönd með atfylgi þá og milligöngu við skattstjóra eða hvernig sem þyrfti. Er þetta mögulegt, hæstv. ráðherra?