Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

253. mál
[16:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Við ræðum frumvarp um að taka aftur upp lokunarstyrkina. Hér hefur verið rætt um stóra samhengi sóttvarnaaðgerða og efnahagsaðgerða og af gildri ástæðu. Þetta er mikilvægt samspil. Það er ekki annað hægt að segja en að við höfum lent í algjörlega fordæmalausum aðstæðum. Ég verð að segja að þegar maður lítur um öxl þá höfum við a.m.k. í stórum dráttum náð að standa með heimilum, með rekstraraðilum. Við höfum gert það fyrst og fremst með því að ákveða að taka á ríkissjóð, sameiginlegan sjóð landsmanna, mikið högg í þeirri trú að með því væri fengin viðspyrna þegar birtir til, að þegar ský drægi frá sólu væri til staðar rekstur, væri áfram líf í fyrirtækjum, jafnvel þótt þau hefðu þurft að draga saman seglin. Þegar við skoðum árið 2021 tel ég að þetta hafi sýnt sig vera rétt stefna. Í ljós kom að víða í atvinnulífinu fór af stað bara gríðarmikill vöxtur og fyrirtæki fóru aftur að ráða til sín fólk, jafnvel fólk sem við höfðum áður staðið með fyrirtækjunum í að greiða hlutabætur til eða eftir atvikum jafnvel að greiða uppsagnarfrestinn fyrir. Mannaráðningar á síðasta ári leiddu til þess að atvinnuleysið var komið niður undir þau viðmið sem áttu við fyrir heimsfaraldurinn sem er mjög ánægjulegt.

Við erum í enn einni bylgjunni núna. Ég gat ekki séð það fyrir þegar við vorum að þinga fyrir jól að við myndum þurfa að koma með röð af frumvörpum. En ég sá þó alveg fyrir að við myndum standa með veitingageiranum sérstaklega. Og maður hafði áhyggjur af menningargeiranum, sviðslistum og öðrum þeim sem hv. þingmaður sem hér talaði síðast kom inn á. Og þegar spurt er hvort við ætlum að standa með öllum þessum aðilum þá vil ég bara benda á að við höfum nú þegar frestað gjalddögum, við höfum komið með styrki til veitingageirans í sérstöku frumvarpi sem er til meðferðar í þinginu. Á morgun mun ég fara með inn í ríkisstjórn almennu viðspyrnustyrkina sem eru með nokkuð hærri þröskuldi en þeir sem runnu sitt skeið í lok nóvember. Við erum að leggja upp með að þeir muni þá gilda fyrir tímabilið desember, janúar, febrúar og mars.

Við erum í dag að ræða lokunarstyrkina og við höfum þegar frestað gjalddögum fyrir þá sem eru í veitingageiranum frá fyrri hluta ársins yfir á þann síðari. Það er búið að ákveða 450 milljóna innspýtingu inn í ólíka sjóði og margar stuðningsleiðir eru nýttar til að standa með bæði sviðslistum og listamönnum, þeim sem hafa starfað mest í skapandi greinum á menningarsviðinu. Þess vegna held ég að þegar ég hef talið upp öll þessi úrræði verði ég að segja já, ég held að við höfum nú þegar komið fram með eða boðað aðgerðir sem samanlagt munu koma til móts við aðila.

Við verðum á endanum alltaf með einhverja sem mun líða eins og ekki sé verið að teygja sig til þeirra en jafnvel í venjulegu árferði ganga ekki öll áform eftir hjá öllum. Í venjulegu árferði eiga t.d. gjaldþrot sér stað á Íslandi en það merkilega er að á síðasta ári voru færri gjaldþrot þrátt fyrir heimsfaraldur en í venjulegu árferði. Það voru færri gjaldþrot í fyrra en í venjulegu árferði. Ef við skoðum stöðuna hjá bönkunum í dag þá virðist hún bera vitni um nokkuð góða stöðu hjá viðskiptavinum bankanna. Lítið er um vanskil, mjög lítið um vanskil, og innlán hafa vaxið mjög mikið í gegnum þennan heimsfaraldur. Það eru því mörg jákvæð teikn á lofti.

Ég vonast að sjálfsögðu til þess að eftir afgreiðslu þingsins á því sem þarf að koma hingað inn þá munum við ná að lyfta undir með þeim sem verða fyrir barðinu á sóttvarnaráðstöfunum eða eru af öðrum sökum að verða fyrir miklum tekjumissi út af hliðaráhrifum af þessum heimsfaraldri. Það eru margir sem verða fyrir tekjutapi þó að þeim hafi ekki verið gert að loka rekstri sínum eða séu settar einhverjar takmarkanir um fjölda viðskiptamanna eða opnunartíma. Það eru margir aðrir líka sem verða fyrir tekjutapi. Hingað til höfum við sagt að það þyrfti þó að vera umtalsvert tekjutap, sérstaklega vegna þess að við tókum að okkur að hjálpa fyrirtækjunum að draga úr umsvifum sínum með því að þau gætu yfir tíma dregið aðeins úr umfanginu. Þess vegna vil ég trúa því, núna þegar við erum vonandi að leggja upp í þessa síðustu orrustu við afleiðingar heimsfaraldursins, að það lukkist vel hjá okkur að smíða úrræðin og fara með þau í gegnum þingið þannig að hæfilegt tillit verði tekið til athugasemda sem kunna að koma fram og að samanlagt muni þetta hjálpa okkur að tryggja eins konar brú yfir í eðlilegt ástand.

Síðan er nú það að ef við leyfum okkur aðeins að horfa lengra en á árið þá eru nýjustu efnahagsspár, eins og t.d. hjá Íslandsbanka sem kom út í vikunni, að teikna upp bara ágætishorfur fram undan. Það er aftur mikið gleðiefni vegna þess að ef okkur tekst að fá hingað milljón ferðamenn, eins og þar er verið að spá, og ef hagvöxtur verður með þeim hætti sem þar er verið að gera ráð fyrir að öðru leyti þá eru ágætlega bjartir tímar fram undan. Þannig verðum við að geta rætt um horfurnar, í víðu samhengi um leið og við smíðum síðustu úrræðin vegna þessa heimsfaraldurs, vonandi síðustu úrræðin, hérna í þinginu næstu daga og vikur.