152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

Menntasjóður námsmanna.

175. mál
[16:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það stendur samt eftir hérna — og ég átta mig á því að þingmaðurinn vill væntanlega koma nemendum sem fyrst út út í samfélagið í vinnu og allt það. En ég vil alla vega hvetja til þess að allsherjar- og menntamálanefnd skoði þetta vel. Og varðandi það hvort þetta nái utan um þessa aðila, sem ég hef alla vega tilfinningu fyrir að sé ekki, þ.e. doktorsnemana, og þetta svigrúm sem er í kerfinu í dag. Eins ef ég hef skilið þetta rétt; styrkurinn varðandi skólagjaldalán. Kannski fór það fram hjá mér í ræðu hv. þingmanns, hvort þar sé ekki miðað við það líka, af því að ég las það með öðrum hætti, þ.e. að það væri fyrst og fremst krónutölustyrkur á framfærslu. Eins og kerfið er núna fá þeir sem taka hæstu lánin auðvitað eðli máls samkvæmt hæstu styrkina. Fólk velur sér að fara í nám í útlöndum og við hljótum að vilja fá þetta mikið menntaða fólk til baka hér inn í samfélagið. Þannig að ég held að með því að setja svona flatan styrk, eins og hér er verið að leggja til með krónutölu, þá verði erfiðara fyrir þessa nemendur sækja sér dýrt nám í útlöndum ef ekki er um að ræða styrk af skólagjaldalánunum. Þannig að já, ég held að þetta sé eitthvað sem nefndin þurfi að skoða betur. Ég kom að vinnunni við þetta frumvarp síðast þegar það var til umfjöllunar og þekki það þokkalega, þannig að ég held að þetta gangi ekki alveg upp að öllu leyti.