152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

Menntasjóður námsmanna.

175. mál
[16:58]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að mæla fyrir þessari breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna og eiga þannig frumkvæði að mikilvægri umræðu hér í þingsal um námslánakerfið. Ég veit að þetta frumvarp er flutt af góðum hug og ég held líka að ég og hv. þingmaður hljótum að vera sammála um það að hlutverk Menntasjóðs námsmanna eigi að vera að tryggja stúdentum tækifæri til náms án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti. Þetta á að vera félagslegur jöfnunarsjóður. Sjóðurinn og námslánakerfið glatar því hlutverki auðvitað þegar það gerist ár eftir ár að kjör námsmanna dragast aftur úr kjörum annarra hópa í samfélaginu.

Grunnframfærsla námsmanna, sem við skulum muna að er fengin að láni og greidd til baka, er og hefur lengi verið allt of lág og frítekjumarkið líka. Þarna er auðvitað samspilið þannig að stúdentar neyðast til að vinna og helst að vinna meðfram námi til að ná endum saman en á sama tíma skerðist framfærslan töluvert. Þetta er auðvitað vont ástand. Að því leytinu til hlýt ég fagna tillögu hv. þingmanns og flutningsmanna þessa frumvarps um að lögfest verði með ótvíræðum hætti að framfærsla stúdenta skuli að lágmarki nema neysluviðmiði félagsmálaráðuneytisins að viðbættum húsnæðiskostnaði. Þetta er eitthvað sem stúdentahreyfingin hefur lengi kallað eftir og þetta er eitthvað sem við í Samfylkingunni höfum líka tekið undir og töluðum fyrir í kosningabaráttunni. Það er mjög mikilvægt í þessum efnum að reiknaður húsnæðiskostnaður sjóðsins taki mið af raunverulegum aðstæðum stúdenta á húsnæðismarkaði.

Að því sögðu þá hef ég, um leið og ég fagna þessu, ákveðnar efasemdir um ýmsa þætti frumvarpsins og kannski helst bara þá grundvallarbreytingu á styrkjakerfinu sem hér er lögð til. Þetta er í rauninni mjög stór kerfisbreyting sem er verið að leggja þarna til sem felur í sér að í staðinn fyrir að stúdentar fái styrk í formi 30% niðurfellingar af höfuðstól heildarnámsláns verði föst upphæð, 72.000 kr., greidd út mánaðarlega eða í lok annar. Mér finnst svolítið að með þessu sé verið að fletja út stuðningskerfið. Hóparnir sem hafa þurft að skuldsetja sig mest á námsárunum og þurfa þá kannski einmitt mestan stuðning fengju með þessari breytingu ekki 30% niðurfellingu heldur bara 72.000 kr. á mánuði, rétt eins og þeir stúdentar sem ekki hafa þurft á jafnmiklum stuðningi að halda og hafa þar af leiðandi skuldsett sig minna. Það kom reyndar fram í ræðu hv. þingmanns hér áðan að gert væri ráð fyrir því að námsmenn gætu samt einhvern veginn tekið út þessar 72.000 kr. sérstaklega án þess að taka lán. Það var ekki minn skilningur á frumvarpstextanum. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Núverandi stuðningsfyrirkomulag í námslánakerfinu felur fyrst og fremst í sér niðurgreiðslu vaxta fyrir fólk sem lokið hefur námi. Með því kemur stuðningurinn ekki fram fyrr en að loknu námi og gagnast því lítt stúdentum meðan á námi stendur. Þar nýtast fjármunirnir ekki best, enda hefur fólk að jafnaði mun meiri þörf fyrir stuðning meðan það er í námi en eftir að námi lýkur.“

Þarna er lögð áhersla á að styðja betur við stúdenta á meðan þeir eru í námi en það kemur samt fram í 6. mgr. 2. gr. frumvarpsins að fjárhæð námsstyrks komi til frádráttar á framfærsluláni. Hér er í rauninni lagt til að hluti framfærsluláns breytist í styrk sem þýðir að upphæðin sem stúdentar fá greidda inn á reikninginn sinn í hverjum mánuði helst væntanlega óbreytt. Stuðningurinn kemur ekki fram fyrr en lánþegi byrjar að borga af lánunum sem eru þá orðin lægri en annars hefði verið. Þannig að ég sé ekki að þetta frumvarp og það sem er lagt til þar breyti neinu í grundvallaratriðum um það hvenær stuðningurinn kemur fram, nema þá kannski hjá þessum hópi, sem kom hér fram í ræðu hv. þingmanns, sem einhvern veginn ákveður að nýta sér þennan 72.000 kr. styrk en taka ekki lán. Það er væntanlega, já ég veit það ekki, kannski ekki endilega sá hópur sem hefur það verst. Það er þá kannski verið að skapa einhvern hvata þar, færa þennan stuðning beint þangað en ekki til hinna. Ég sé það alla vega ekki. Kannski er ég að misskilja eitthvað.

Svo sýnist mér að þessi breyting hljóti að bitna á stúdentum sem taka skólagjaldalán. Sjóðurinn lánar núna fyrir allt að 6 millj. kr. vegna skólagjalda. Þetta eru verulegar fjárhæðir. Fyrir marga er þetta kannski það sem skiptir einna mestu máli. Í dag hefur þessi hópur möguleika á 30% niðurfellingu á heildarláni sem einnig tekur til skólagjaldalánsins. En með breytingunni sem er lögð til í frumvarpinu sé ég ekki að gert sé ráð fyrir styrk vegna skólagjalda. Ef eitt af markmiðum þessa frumvarps samkvæmt greinargerðinni er að búa til hvata til þess að fólk klári nám — það er svo annað í þessu — er hér um leið í rauninni verið að taka út hvatann sem er fólginn í núverandi kerfi og felur í sér þessa 30% niðurfellingu ef nám er klárað á nánar tilgreindum tíma.

Svo er það enn eitt. Í 14. gr. núgildandi laga er kveðið á um svolítið ríkt svigrúm til seinkunar í námi án þess að réttur til námsstyrks skerðist. En mér sýnist í þessu frumvarpi, þar er talað um 45 mánuði, að þetta sé í rauninni miklu minna svigrúm en er í kerfinu núna. Það klárar engin BA-nám, mastersnám og doktorsnám á 45 mánuðum, það eru fimm ár.

Eins og ég sagði í upphafi ræðunnar fagna ég og styð tillögu flutningsmanna um lögfestingu grunnframfærslunnar. Mér finnst það mjög góð tillaga og ég styð hana og ég vildi óska þess að það væri hérna ríkisstjórn við völd sem styddi slíka aðgerð. En ég held að svona að öðru leyti sé ýmislegt í þessu frumvarpi sem þyrfti að rýna miklu betur og þá með tilliti til þess að við hljótum að vilja að námslána- og námsstyrkjakerfið sé — afsakið að ég sletti — prógressíft en ekki regressíft, að þetta sé ekki einhver flatur stuðningur og að þetta sé félagslegur jöfnunarsjóður.