152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

160. mál
[17:24]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingheimur og þið alþjóð, sem horfir á okkur í beinni útsendingu. Ég heiti Tómas kallaður Tommi og ég er eldri borgari sem þýðir að ég er orðinn 67. Reyndar er ég að verða 73 ára. Mikið yrði ég hamingjusamur yfir þessu ef tillagan sem verið er að bera hér upp yrði samþykkt. Tannlæknirinn minn, hann Tóti tönn, sem er orðinn 84, segir: Tommi, aldur er bara tala, og ég get alveg tekið undir það. Ég vil meina að allir þurfi að hafa hlutverk í lífinu þegar þeir vakna á morgnana. Ég er svona hamingjusamur að vera í þessu starfi mínu þó að ég sé orðinn þetta gamall að ég er á undanþágu sem mér finnst gott. Ég elska starf mitt hér á Alþingi. Warren Buffet var spurður að því af hverju hann fjárfesti svona mikið í fyrirtækjum sem hafa fullorðna stjórnendur og hann sagði eftirfarandi: „It is so difficult to teach young dogs old tricks.“ Sem sagt að reynslan skiptir öllu máli.

Ég get alveg tekið undir að það þurfi að hafa einhvers konar starfsgetukönnun þegar fólk er orðið sjötugt. Alveg eins og þegar ég fæ bílprófið endurnýjað þarf ég að sýna fram á að ég geti keyrt og það er allt í lagi. Þeir sem vilja og geta unnið eiga að fá að vinna. Ég man að þegar ég var ungur maður þá horfði ég gjarnan á prest sem var frægur sem hét Árelíus Níelsson, sem var þjóðhetja á þeim tíma. Hann fór að bera út Moggann þegar hann hætti að vera prestur og af hverju? Jú, hann vildi hafa eitthvað að gera þegar hann vaknaði á morgnana og (Forseti hringir.) ég tek undir það. Ég segi: „If you don´t use it, you lose it“ og vinna er bæði andleg og líkamleg æfing.