152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

160. mál
[17:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa þingsályktunartillögu. Ég tel að hún sé mjög skynsamleg og styð hana. Það hefur sýnt sig að aukin virkni í lífinu eykur á vellíðan og lífshamingju og þess vegna á ekki að vera ákveðið í lögum að þegar menn hafa náð tilteknum aldri, menn og konur, þá sé einhvern veginn búið að segja þeim að þeirra starfskrafta sé ekki vænst í samfélaginu lengur. Það finnst mér vera óheppileg aðferð og á í raun og veru ekki að koma frá ríkisvaldinu að mínu mati.

Ég vildi spyrja hv. þingmann að því — nú lýtur þetta að ríkisstarfsmönnum, og ríkið hefur stofnað opinber hlutafélög sem eru að fullu í eigu ríkisins og þar er starfsmönnum gert að hætta að vinna 67 ára, jafnvel 65 ára — hvort hún sé sammála mér í því að það sama ætti að gilda um opinber hlutafélög ríkisins og ríkisstarfsmenn. Eins og lögin eru í dag fá ríkisstarfsmenn að vinna til sjötugs en þeir sem eru hjá hinu opinbera, þ.e. opinberum hlutafélögum, fá að vinna til 67 ára aldurs. Mér finnst þetta vera mismunun. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé sammála mér í því að þarna þurfi að gæta samræmis á milli.