152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

160. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Maður hefur einmitt séð það of víða að þekkingin tapast. Mannauðurinn verður allt öðruvísi, sannarlega. Þótt við segjum gjarnan að alltaf komi maður í manns stað þá er það líka oft þannig að mikil þekking tapast. Það verður spekileki. Ef þú ert með marga á svipuðum aldri í tilteknu fyrirtæki eða í tiltekinni stofnun er hætta á því að það geti gerst. Ég er alveg sammála því, eins og komið hefur fram hjá hv. þingmönnum sem hafa farið í andsvar, að þetta er lýðheilsumál. Það er alveg rétt. Það að geta verið í vinnu, kjósi maður það og geti, skiptir gríðarlega miklu máli fyrir alla aðila. Ég ætla kannski að kanna þetta með opinberu hlutafélögin af því að þingmaðurinn nefndi það að koma með breytingartillögu í nefndinni. Ég hugsa að ég leggist bara yfir það núna að kanna hvort það er fært eða hvort maður þurfi að gera það í sérstöku máli eða hvernig það er. En alla vega þakka ég fyrir þá ábendingu af því að það er jú sannarlega á okkar vegum og við eigum að taka utan um það líka. Ég kem því til með að skoða það.