152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

160. mál
[17:39]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir þessa þingsályktunartillögu og fannst kjörið að koma hérna upp og fagna því að málefnið sé hér til umræðu. Það er mikilvægt að hafa í huga að einstaklingar missa ekki vinnugetuna við ákveðinn afmælisdag, en að jafnaði er gert ráð fyrir því að ríkisstarfsmanni sé sagt upp starfi frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri. Hins vegar verða starfslok ekki sjálfkrafa á almenna vinnumarkaðinum þegar tilteknum lífaldri er náð. Hér á landi eru nefnilega fjölmargir sem vilja og geta unnið lengur en ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins kveða á um. Lög um starfslok opinberra starfsmanna binda hendur þeirra eldri borgara sem kjósa að vinna lengur, sem og atvinnuveitenda. Eldra fólkið okkar á að eiga val um hvort það fari á eftirlaun eða haldi áfram á vinnumarkaði. Það á ekki að vera undir reglum eða lögum komið hvenær einstaklingur hættir störfum. Það á að vera ákvörðun starfsmanns og vinnuveitanda og samtal og samkomulag þeirra á milli út frá mati og getu hverju sinni.

Á síðasta kjörtímabili leiddi ég starfshóp um lífskjör og aðbúnað eldra fólks. Í niðurstöðum starfshópsins kom fram að aldurssamsetning þjóðarinnar hefur tekið breytingum og mun halda því áfram. Hlutfall eldri borgara fer hækkandi og lífaldur lengist. Aldraðir eru heilsuhraustari en áður og við sjáum að aldur hamlar þeim ekki við að stunda atvinnu sína, hver sem hún er. Þær áherslur sem koma fram í þessari þingsályktunatillögu samræmast vel áherslum Framsóknar. Framsókn vill afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum sökum aldurs. Þeir sem vilja áfram vera virkir á vinnumarkaði að eiga að hafa kost á því ef vilji bæði launafólks og vinnuveitenda stendur til þess. En ljóst er að ákvörðun sem þessi mun víða hafa áhrif í kerfinu. Því er nauðsynlegt að greina alla þá þætti er viðkoma m.a. lífeyrissjóðskerfinu og almannatryggingum og koma með tillögur að breytingum. Einnig er mikilvægt að skoða þetta út frá kynjajafnrétti og áhrifum á kynin. Við skiptum öll máli og öll eigum við að fá tækifæri til að taka þátt og hafa áhrif á samfélag okkar. Auður íslensks samfélags byggir á þeim sjónarmiðum, sjónarmiðum um manngildi. Fjölmargt af eldra fólkinu okkar vill enn taka þátt í samfélaginu, vera í virkum samskiptum við fólk og finna fyrir mikilvægi. Það er m.a. gert með atvinnuþátttöku. Við eigum ekki að setja þeim stólinn fyrir dyrnar í því samhengi. Tökum við þeim fagnandi. Með þeim kemur ferskur blær. Þetta eru einstaklingar sem hafa víðtæka reynslu og þekkingu og samhliða þeirri getu sem það býr flest enn yfir. Við viljum fjárfesta í fólki og það er m.a. gert með því að veita því tækifæri til að blómstra óháð aldri.