152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

húsnæðisliður í vísitölunni.

[15:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Forseti. Það fer víst ekki fram hjá neinum að efnahagslegt ástand í samfélaginu er mörgum ansi erfitt og bágt. Við erum að takast á við 5,7% verðbólgu. Ef húsnæðisliðurinn væri hins vegar ekki inni í vísitölunni væri verðbólgan 3,7%. Þess vegna ber mér hreinlega að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig standi á því að þeir kjarasamningar sem voru gerðir í tíð fyrri ríkisstjórnar, sem hún var líka forsætisráðherra í og leiddi, þar sem efni stóðu til þess og skilningurinn virtist vera sá að taka ætti húsnæðisliðinn út úr vísitölu — hvers vegna það hafi ekki verið gert.

Þar sem hún er í ríkisfjármálaráðherrakaplinum langar mig líka að spyrja hana að því hvort ekki eigi að gera neitt. Við vitum að með 5,7% verðbólgu eru afborganir verðtryggðra húsnæðislána, 30 millj. kr. lána, að hækka um 500.000 kr. á ári eða um ríflega 46.000 kr. á mánuði, og munar um minna fyrir fólk sem nær ekki endum saman. Við vitum að við erum að flytja inn hrávöru og nauðsynjavörur sem hafa hækkað gríðarlega í heimsfaraldrinum. Hvernig hefur hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar hugsað sér að bregðast við? Er í kortunum að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu? Er í kortunum að lækka virðisaukaskatt á nauðsynlegustu matvörur og annað slíkt til að létta undir með heimilunum svo að eitthvað sé nefnt? En ég býst við og vona a.m.k. að hæstv. forsætisráðherra hafi eitthvað miklu meira um þetta að segja en ég kannski hef hugmyndaflug til að spyrja um. Að öðru leyti hef ég ekkert meiru við það að bæta nema að ástandið er grafalvarlegt og ég trúi því að það sjái það allir sem sjá vilja.

Ég vil líka spyrja virðulegan forseta: Af hverju er ljósið ekki farið að blikka, af hverju get ég talað endalaust? Er eitthvað bilað hjá okkur?

(Forseti (BÁ): Þetta er hárrétt athugasemd hjá hv. þm. Ingu Sæland. Klukkan í ræðupúltinu er eitthvað að stríða okkur. Forseti verður, ef það lagast ekki, að gefa merki með bjöllunni.)