152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

gögn frá Útlendingastofnun og ráðherraábyrgð.

[15:28]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Að verða íslenskur ríkisborgari getur verið gríðarlega mikilvægt réttindamál fyrir þá einstaklinga sem sækjast eftir því og veiting ríkisborgararéttar auðgar íslenskt samfélag með fjölbreyttri flóru fólks sem vill tilheyra því. Við sem hér stöndum og sitjum áttum okkur kannski ekki á því hvað ríkisborgararétturinn okkar er mikils virði. Það vita þau sem eru ríkisfangslaus og þau sem geta af einhverjum orsökum ekki nýtt sér þau réttindi sem fylgja þeim ríkisborgararétti, eins og t.d. einstaklingar frá Sýrlandi. Nú er það svo að íslenskri stjórnskipan að ríkisborgararéttur er veittur eftir tveimur leiðum. Annars vegar er ríkisborgararéttur veittur með stjórnvaldsákvörðun Útlendingastofnunar að uppfylltum ströngum skilyrðum, búsetutíma og fjárhagsstöðu og fleira. Hins vegar er ríkisborgararéttur veittur með lögum frá Alþingi og lögin um þá veitingu er mjög skýr: Útlendingastofnun ber að safna tilteknum gögnum saman og skila til Alþingis sem síðan tekur ákvörðun.

Forseti. Hæstv. innanríkisráðherra hefur ekki bara viðurkennt opinberlega heldur hreinlega stært sig af því hafa fyrirskipað Útlendingastofnun að fylgja ekki lögum og meina þinginu um þær upplýsingar sem það þarf til að geta sinnt þessu lögbundna hlutverki sínu. Þetta gerir hann að eigin sögn vegna þess að honum finnst að lögin eigi að vera öðruvísi en þau eru. En, forseti, ráðherrum ber að fylgja lögum algjörlega burt séð frá skoðunum sínum á þeim. Að gefa undirstofnun fyrirmæli um að fylgja ekki lögum sem ráðherra líkar ekki er klárt brot á lögum um ráðherraábyrgð. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra í ljósi þess að ráðherra í ríkisstjórninni sem hún leiðir gengst hróðugur við því að brjóta lög og brjóta á þinginu: Hvernig hyggst hún bregðast við?