152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

samstaða um gerð kjarasamninga.

[15:36]
Horfa

félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem er ekki lítil. Hún varðar málefni sem skiptir mjög miklu máli nú á næstu mánuðum hér í íslensku samfélagi. Það er vissulega áhyggjuefni að verðbólgan er á uppleið og hefur verið. Það hefur verið rætt í dag í þessum sal að hluta af því megi tengja við það sem er að gerast annars staðar í heiminum, sérstaklega vegna húsnæðismálanna. Af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega hvernig ég sjái fyrir mér að hægt verði að ná utan um þetta þá held ég að það séu mjög stórar áskoranir fram undan hjá okkur þegar kemur að kjarasamningagerð, ég neita því ekki.

Við verðum að muna að það eru aðilarnir sjálfir sem eru að semja. Aðkoma ríkisins er vissulega mikilvæg og hefur oft orðið til að liðka fyrir milli samningsaðila. Ríkisstjórnin eða formenn stjórnarflokkanna hafa ásamt mér þegar hafið samtal við aðila vinnumarkaðarins um ákveðna afmarkaða þætti sem þarna koma til sögu.

Það er líka áhugavert að horfa til þess hvernig staðan er hér á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd þegar við horfum á fjölda þeirra mála sem enda á borði ríkissáttasemjara. Þau eru miklu fleiri hér en í nágrannalöndunum og álíka margir samningar hér og gerðir eru í löndum sem eru með miklu stærri vinnumarkað. Áskoranirnar eru stórar og ég er sannfærður um að hið opinbera muni þurfa að koma inn í þetta líkt og áður. Ég held að húsnæðismálin verði vissulega stórt mál þar.