152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

samstaða um gerð kjarasamninga.

[15:38]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vil bara að minna á það að ríkið er sjálfur stór samningsaðili. Það er ríkið sem býr til það samningsumhverfi sem er til staðar hverju sinni.

Mig langar að nefna að í síðustu viku greip seðlabankastjóri til þeirra ráða að koma í veg fyrir styrkingu krónunnar í annað sinn í þessum mánuði. Við vitum að það gagnast útflutningsgreinum á meðan neytendur tapa. Með þessu inngripi er seðlabankastjóri að koma í veg fyrir að verðbólga minnki, að vextir lækki og hagur heimilanna batni. Samt ber honum að vinna að því að verðbólga sé innan settra markmiða, þ.e. lægri en 2,5%. Síðan má ætla að hann þurfi að grípa til stýrivaxtahækkana til að ná niður verðbólgu sem hefur ekki verið meiri í áratug. Það er sá veruleiki sem íslenskur almenningur býr við og ekki er að sjá að neinna breytinga sé að vænta (Forseti hringir.) á meðan þessi ríkisstjórn er við völd.

Er hæstv. ráðherra ekki uggandi (Forseti hringir.) yfir þeim viðvarandi óstöðugleika sem verið er að bjóða fólki (Forseti hringir.) og áhrifunum sem hann getur t.d. haft á ákvarðanir ungs fólks um búsetu?