152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

forsendur sóttvarnatakmarkana.

[15:41]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Mig langaði að ræða við hæstv. forsætisráðherra um þau gögn og þau rök sem liggja að baki ákvörðun varðandi sóttvarnatakmarkanir. Ég vil þó byrja á að fagna því að við séum byrjuð að aflétta takmörkunum hér og séum að skoða það á hverjum degi hvernig megi aflétta enn frekar. Hæstv. forsætisráðherra fékk hér í september 2020 til sín greinargerð frá Páli Hreinssyni um það hvaða kröfur stjórnvöld þyrftu að uppfylla til að setja á íþyngjandi takmarkanir. Þar kemur fram að við íþyngjandi úrræði ber stjórnvaldi að velja það úrræði sem vægast er hverju sinni og eru gerðar strangar kröfur til sönnunar á nauðsyn skerðingarinnar. Svo þarf að vera samband á milli úrræðis og markmiðsins; því strangari sem kröfurnar eru þeim mun meiri er rannsóknarskyldan hjá stjórnvaldinu.

Svo kemur líka þar fram að eftir því sem lengra líður í baráttu við farsótt verður að ætla að kröfur aukist um að stjórnvöld rannsaki betur og afli upplýsinga um virkni ráðstafana. Það er það sem mig langaði að spyrja hæstv. forsætisráðherra nánar um: Hvaða gögn liggja hér að baki önnur en minnisblaðs sóttvarnalæknis? Nú lýsir sóttvarnalæknir því yfir að hann hafi ekki gert lögfræðilegt mat, hann geti ekki tjáð sig um lagalegt gildi tillagna sinna, þannig að ég óska eftir að við fáum þær upplýsingar. Og einnig: Hvaða gögn og mat liggur því til grundvallar að við göngum ekki lengra en nauðsyn krefur og að hvaða markmiði stefna þær aðgerðir sem nú eru í gangi miðað við það sem ég fór yfir áðan?