152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

forsendur sóttvarnatakmarkana.

[15:44]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Jú, mér er nokkuð málið skylt þar sem ég og þáverandi heilbrigðisráðherra fengum Pál Hreinsson til að vinna þá greinargerð sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason vísar til. Auðvitað er það svo að heilbrigðisráðherra fer yfir heimildir laganna hverju sinni og leggur í raun og veru sjálfstætt mat á stöðu faraldursins og heilbrigðiskerfisins við ákvörðun aðgerða hverju sinni. Þar er horft til 12. gr. sóttvarnalaga þar sem er útlistað samspil ráðherra og sóttvarnalæknis þegar gripið er til opinberra sóttvarnaráðstafana. Þá er það túlkað þannig að leggja þarf ákveðið heildstætt mat á þetta. Það er ekkert ólíkt hér á landi eða mikið frábrugðið því sem gerist í öðrum löndum og hv. þingmaður hefur væntanlega fylgst með því. Þar eru ýmsar ráðstafanir í gangi en þjóðir heims hafa hins vegar tekið mismunandi nálgun í því til að mynda hvort þær velja aflétta öllu í einu, eins og Danir hafa valið að gera, eða gera þetta í skrefum, eins og Færeyingar hafa valið að gera, og aðrar Norðurlandaþjóðir hafa til að mynda ekki tekið ákvarðanir enn þá um afléttingar. Alls staðar fer fram þetta sama heildstæða mat sem byggir ekki bara á innlagnarhlutfalli heldur líka fjölda smita, hlutfalli hættulegri afbrigða hjá þeim sem smitast, því að við vitum að við erum ekki laus við delta-afbrigðið þó að ómíkron-afbrigðið hafi orðið töluvert yfirgnæfandi, sem og stöðuna í heilbrigðiskerfinu sem hefur verið veik vegna þess mikla fjölda heilbrigðisstarfsfólks sem hefur verið fjarri frá vinnu vegna veikinda. Það hefur að sjálfsögðu áhrif á viðbúnaðargetu spítalans, sem er líka hluti af því heildstæða mati sem þarf að fara fram.

Við áttum núna síðast fund með ýmsum sérfræðingum á sviði mannréttinda, lögfræði og sóttvarnaráðstafana í kringum áramótin til þess einmitt að meta stöðuna. En auðvitað er það síðan á ábyrgð hæstv. heilbrigðisráðherra að meta stöðuna hverju sinni. Ég get upplýst hv. þingmann um það að þær ákvarðanir sem við tókum síðast (Forseti hringir.) miðast að sjálfsögðu við tillögur sóttvarnalæknis og samtöl okkar við sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins og líka lögfræðinga(Forseti hringir.) og nú er væntanlegt síðar í vikunni (Forseti hringir.) mjög ítarlegt áhættumat á stöðu faraldursins sem mun gagnast okkur við frekari ákvarðanatöku.