152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

forsendur sóttvarnatakmarkana.

[15:46]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Einu gögnin sem liggja fyrir og við getum lesið og fengið í hendur eru einmitt minnisblað sóttvarnalæknis. Ég kalla eftir því mati sem gert var. Ég hæli stjórnvöldum fyrir að hafa ekki alltaf farið algjörlega eftir minnisblaði sóttvarnalæknis. Þau hafa ákveðið að halda skólum opnum, fara hraðar í afléttingar en til hefur staðið, sem hefur væntanlega byggt á einhverju mati. Ég kalla eftir gögnum þar sem t.d. eru metin brot gegn börnum, áhrif á lýðheilsu ungs fólks, stöðu láglaunafólks og aðrar afleiðingar sem sóttvarnaráðstafanir hafa haft, og eins lögfræðilegu mati á því að þessar ráðstafanir gangi ekki lengra en nauðsyn krefur. En hæstv. forsætisráðherra sagði að slíkt mat færi fram. Það liggja ekki fyrir gögn til að meta hvort sóttvarnaráðstafanir séu samkvæmt lögum og hvort þær séu bráðnauðsynlegar eða ekki.