152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

stuðningur við fötluð ungmenni eftir framhaldsskóla.

116. mál
[16:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þegar ég sé svona mál fletti ég gjarnan upp í fjármálaáætlun því þar kemur stefna stjórnvalda fram um hvað þau ætla að gera betur í hinum og þessum málaflokkum. Það er einfaldlega ekkert í núgildandi fjármálaáætlun um þennan málaflokk þannig að ég býst fastlega við því að hæstv. ráðherra taki sig til og skelli einhverri stefnumótun um þetta í komandi fjármálaáætlun fyrir vorið. Það var minnst á Fjölmennt í framsöguræðu í þessu máli, að það hefði verið erfitt að gera samning við Fjölmennt. Þegar ég vann í Menntamálastofnun þá gerði Menntamálastofnun samning um aðgang að mötuneytinu í Fjölmennt þannig að það virðist vera hægt að gera samning við Fjölmennt um samstarf við íslenska menntakerfið en ekki á þennan hátt, sem er svolítið skrýtið. Ég hvet hæstv. ráðherra til að sýna fram á þetta í komandi fjármálaáætlun.