152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

stuðningur við fötluð ungmenni eftir framhaldsskóla.

116. mál
[16:05]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og taka undir margt af því sem hér hefur komið fram. Aðeins varðandi það sem hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir kom inn á um framhaldsskólalögin og breytingar á þeim og því að skerpa á því er lýtur að stöðu þessara nemenda. Mér finnst það, sagt án ábyrgðar, bara mjög spennandi. Þetta er ekki eitt af því sem varð niðurstaðan í þeirri vinnu sem er í skýrslunni, en mér finnst það mjög spennandi. Ég heiti ráðherranum því að ég mun kanna það vegna þess að ég er algerlega sammála því að ef hægt er að formgera þessa möguleika og þær skyldur sem eru í lögum þá eru auðvitað miklu meiri líkur á því að ekki verði grá svæði hvað þetta snertir.

Hv. þingmaður spurði sérstaklega út í Fjölmennt og það sem lýtur að tengingu við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Fjölmennt er að flytjast yfir núna og ég held að það séu tækifæri fólgin í því. Það er auðvitað þannig að þó að þessi mál séu að færast á milli ráðuneyta að einhverju leyti núna þá voru þau samt sem áður í fleiri ráðuneytum fyrir þær breytingar, þ.e. vinnumarkaðshlutinn var í félagsmálaráðuneytinu. Þannig að það mun þurfa í þessu máli áfram, hér eftir sem hingað til, að tryggja samtal og samvinnu á milli ráðuneyta og milli kerfa.

Síðan vil ég aftur segja að ég lít á þessa umræðu sem var hér sem brýningu og fer með hana inn í ráðuneytið. Ég mun gera mitt besta til að reyna að fylgja eftir niðurstöðum skýrslunnar og þessum tillögum í verkefnahópnum og held þinginu eins vel upplýstu og mögulegt er.