152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

þjóðarhöll og þjóðarleikvangur fyrir íþróttir.

117. mál
[16:16]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Ég er mjög ánægð með að þetta mál skuli vera á dagskrá hér í dag en ég vildi líka óska þess að við kæmumst upp úr þeim fótsporum og hjólförum að vera eilíflega að lýsa ákveðinni stöðu og færum að lýsa ákveðnum skrefum í átt að lausninni. Við vitum að staðan er sú að ekkert hús uppfyllir þær gæðakröfur sem gerðar eru í alþjóðakeppnum. Við vitum að fyrir liggja gögn um greiningar. Við vitum að höll sem tekur 8.600 áhorfendur kostar í kringum 7 milljarða. Við vitum að hús sem tekur 5.000 áhorfendur kostar í kringum 6 milljarða. Í því samhengi er áhugavert að ríkisstjórnin hafi tekið sér 2 milljarða í að fjölga ráðherrastólum. Það er stundum lýsandi að setja tölur í samhengi, hvað höll myndi kosta, hvað hún gæfi þjóðinni. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að sú höll gæfi þjóðinni umtalsvert meira en þau hús sem ríkisstjórnin er að reisa sjálfri sér.