152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

þjóðarhöll og þjóðarleikvangur fyrir íþróttir.

117. mál
[16:20]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra afdráttarlaust svar hæstv. ráðherra hér af því að í síðustu viku hélt hann því fram, í morgunútvarpi Rásar 2, að það væri einhver störukeppni í gangi við borgina. Ég varð nokkuð hvumsa, þar sem ég var á göngu minni um Reykjavíkurborg, sem verður æ fallegri eftir því sem vikur og mánuðir líða undir stjórn jafnaðarmanna, að heyra þá yfirlýsingu af því að borgin er búin að taka frá 2 milljarða í þessar byggingar. Það stendur því ekki á Reykjavíkurborg að koma að byggingu umræddra mannvirkja. Þetta er bráðnauðsynlegt af því við erum ekki bara á undanþágu heldur höfum við misst undanþáguna. Íslenska kvennaliðið í körfubolta fékk jú að spila í Ólafssal í Hafnarfirði á dögunum en íslenska körfuknattleiksliðið þurfti að spila sinn landsleik úti í heimi, fékk ekki sambærilega undanþágu. Við erum í þessum sporum núna og ég fagna því að ráðherrann skuli lýsa þessu svo afdráttarlaust yfir en ég vonast til þess að hann fái peningana til þess að geta staðið við stóru orðin.