152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

þjóðarhöll og þjóðarleikvangur fyrir íþróttir.

117. mál
[16:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég vona að mér hafi misheyrst en mér fannst ráðherra vera að kenna íþróttahreyfingunni svolítið um, að hún þyrfti að kjarna sig, að hún hefði verið frekar óviss um það framan af hvernig nálgast ætti málið en nú væri ástandið betra. Ég vona að ég hafi misskilið hæstv. ráðherra því að íþróttahreyfingin hefur haft sín mál á hreinu þegar að þessum byggingum kemur.

Í öðru lagi vil ég benda hæstv. ráðherra á að haustið 2020 kom þessi sama ríkisstjórn með yfirlýsingu um þjóðarleikvang og þjóðarhöll. Hálfu ári síðar er fjármálaáætlun til 2026 kynnt og ekki er ein króna í þjóðarhöll.

Í þriðja lagi segir hæstv. ráðherra í viðtali, ekki alls fyrir löngu, fyrir jól, að hans fyrsta mál verði að koma með þjóðarhöllina, að það yrði hans fyrsta mál, ef marka má viðtal sem haft var við hann í Vísi. Ég fer yfir málaskrá ráðherra, skrána sem ráðherrann ætlar að setja fram sín megin, áhersla hans á þessu tímabili, og þar er engin þjóðarhöll. Auðvitað geta aðstæður breyst og ég undirstrika að ég veit að hæstv. ráðherra er velviljaður íþróttunum. Ég þarf að fá að vita meira en að verið sé að skoða betur niðurstöður, skrifa skýrslur og skipa nefndir. Ég þarf að fá að vita hvenær við fáum okkar þjóðarhöll, íþróttahreyfingin þarf að fá að vita það og þjóðin þarf að fá að vita það. Í guðanna bænum talið þið skýrt í þessum efnum. Hvenær fáum við okkar þjóðarhöll?