152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

þjóðarhöll og þjóðarleikvangur fyrir íþróttir.

117. mál
[16:23]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Bara svo að ég endi á því sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var að velta fyrir sér, sem var óvissa af hálfu íþróttahreyfingarinnar, vil ég geta þess að ég hef átt mjög góða fundi með íþróttahreyfingunni þar sem hún hefur m.a. lýst því sjálf, fulltrúar körfuknattleiksins, handknattleiksins, knattspyrnunnar og frjálsíþróttanna, að þessi vinna síðustu eitt til tvö árin hefur gert það að verkum að þau eru meira á sömu blaðsíðu en þau voru. Ég var einfaldlega að rekja það að öll sú undirbúningsvinna er ekki glötuð vegna þess að hún er hluti af því að ná niðurstöðu.

Ég hef átt mjög góð samtöl við borgarstjóra um þessi mál. Það þurfa að fara fram sérstakar samningaviðræður við borgina um það hver hlutur borgarinnar verður og hver hlutur ríkisins verður. Það er sú vinna sem er að fara af stað og til þess að undirstrika pólitískt mikilvægi þess þá eru það ekki starfsmenn í ráðuneytinu sem leiða þá vinnu fyrir mína hönd heldur er það pólitískur aðstoðarmaður minn sem mun leiða þá vinnu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Samtalið við borgina er: Með hvaða hætti? Hvenær getum við byrjað? Hver verður kostnaðarhlutdeildin? Og síðan er það samtalið við íþróttahreyfinguna: Á hverju á að byrja? Hvernig á að byrja? Það er vinna sem mun fara fram næstu einn til tvo mánuði með það að markmiði að koma skóflu í jörð sem fyrst. Það er verkefnið.

Ég hef engan áhuga á því að ýta úr vör fleiri verkefnum stýrihóps eða nefndar eða annað um þetta mál. Ég hef áhuga á því að koma þessu máli áfram. Ég hef áhuga á því að við komumst sem fyrst af stað og allt annað tal og vangaveltur hér í þingsal eru einfaldlega úr lausu lofti gripnar. Ég mun fylgja þessu máli fast eftir, þetta er í stjórnarsáttmála. Við ætlum okkur að klára þetta og ég sé enga ástæðu til að taka þátt í þeim leik að benda á borgina vegna þess að ég hef ekki fundið annað, af samtölum mínum við fulltrúa þar, en að það sé vilji til að gera slíkt hið sama.