152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

staða mála á Landspítala.

119. mál
[16:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og fyrirspyrjanda, Ásthildi Lóu Þórsdóttur, fyrir að taka hér á dagskrá stöðu mála á Landspítala. Það er þörf umræða í öllu samhengi, hvort heldur við lítum til stærðar eða fjárhagslegs umfangs eða hins víðtæka hlutverks sem við ætlum þessari mikilvægu stofnun í okkar heilbrigðiskerfi til þjónustu við alla landsmenn.

Hv. þingmaður beinir sjónum sínum að fjórum þáttum, ekki einungis mikilvægum heldur mjög veigamiklum sem hafa verið, eru og verða í vinnslu. Ég vil segja það strax að það verður ekki leyst í einu vetfangi og kannski er enn mikilvægara þess vegna að taka það á dagskrá hér eins og hv. þingmaður gerir. Í fyrsta lagi er spurt um álagið á bráðamóttöku, í öðru lagi um mönnunarvanda, í þriðja lagi um áætlanir um fjölgun hjúkrunarrýma og að lokum um viðbúnað og viðbrögð við neyðarástandi eins og stórslysum eða heimsfaraldri. Að einhverju marki hangir þetta nú mjög saman. Ég mun reyna að gefa einhverja sýn á það sem hefur verið gert, hverju það hefur skilað og mun skila.

Hvaða áætlanir hafa verið gerðar til að draga úr álagi á heilbrigðisstarfsfólk, ekki síst á bráðamóttöku, og hvenær koma þær til framkvæmda? Embætti landlæknis fylgist jöfnum höndum með stöðunni á bráðamóttöku. Það skal viðurkennt hér að þrátt fyrir ýmsar leiðir til úrbóta þá þarf að gera miklu betur. Þegar litið er til gæðavísa eins og biðtíma og dvalartíma er álagið bara of mikið þegar álagspunktarnir eru mestir. Þetta þarfnast endurskoðunar og lausna. Það er ekki nægilegt að vísa til nýs húsnæðis sem er í byggingu. Meðferð er ferli sem þarfnast vissulega betra húsnæðis og aðstöðu og að fljótt takist að útskrifa sjúklinga í viðeigandi úrræði eftir að meðferð er lokið. Áfram þarf að leita leiða til að tryggja og bæta mönnun í hjúkrun og umönnun. Þetta hangir með þessum hætti saman. Ég vil vísa til úrræða og aðgerða sem fólust í tillögum átakshóps um lausnir á þeim vanda sem birtist á bráðamóttöku spítalans og snúa að þessum þáttum. Þær eru nú allar komnar í framkvæmdaferli en án þess að vera lokið mörgum hverjum. Það skal alveg viðurkennt að þessar fjölmörgu tillögur átakshópsins voru settar fram á upphafsmánuðum 2020 þegar faraldurinn skall á og það hefur tafið mjög framkvæmd á ýmsum af þessum tillögum.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður um hvað hafi verið gert til að stemma stigu við mönnunarvandanum. Það er auðvitað einföldun, virðulegi forseti, þegar ég segi að starfsaðstæður og kjör skipti hér öllu máli, en það er engu að síður þannig. Það eru auðvitað fjölmargir aðrir þættir sem snúa að þessum lykilatriðum og hafa áhrif á þau. Það er mjög mikilvægt að til grundvallar liggi rétt mönnunarviðmið, og ég held að við getum gert miklu betur þar, og rétt verkaskipting á milli heilbrigðisstétta með tilliti til samvinnu faghópa og teymisvinnu út frá þeirri þjónustu sem verið er að veita. Ég held að við getum gert betur hér. Hér má örugglega gera betur, eins og ég segi, ekki síst til að draga úr álagi. Birtingarmyndin er svolítið þessi, þegar maður fer að leita upplýsinga um þennan þátt, að það þarf að skilgreina hlutverkin betur. Það er hins vegar enginn vafi á því að álagið er og hefur verið mikið þegar kemur að mönnun og það verður áskorun okkar í bráð og lengd. Tillögur landsráðs um menntun og mönnun í heilbrigðiskerfinu hafa verið til skoðunar, til útfærslu og framkvæmda eftir sérstakri aðgerðaáætlun og í fjármálaáætlun og ég vonast til að hægt verði að kynna þær tillögur fljótlega.

Varðandi áætlanir um fjölgun hjúkrunarrýma og legurýma sem hv. fyrirspyrjandi kemur inn á þá er því til að svara að fjölmargar af tillögum átakshópsins snúa að þessu fjölþætta verkefni. Þar komum við inn á samráð og samfellu í þjónustu sveitarfélaga og heilsugæslu, vinnu þróunarteymis, úrbætur í formi dag- og göngudeildarþjónustu og eflingu á heimaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Samhliða hefur legurýmum, bæði á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum, verið fjölgað. Næstu daga munu til að mynda bætast við rými á Sólvangi og í mars á Selfossi og það mun nýtast tímabundið meðan við erum að brúa þetta bil á höfuðborgarsvæðinu, meðfram öðrum úrræðum. Ég ætla að koma hér í seinni ræðu að fjórða atriðinu og bregðast við þeirri umræðu sem fer fram hér, virðulegi forseti.