152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

staða mála á Landspítala.

119. mál
[16:35]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu. Mig langar aðeins að velta upp hvort það hafi komið til álita hjá stjórnvöldum að veita heilbrigðisstarfsfólki, sem margt hvert er algerlega að niðurlotum komið og var það svo sem fyrir heimsfaraldur, eins og við fengum oft fregnir af, tímabundinn skattafslátt nú þegar við sjáum vonandi fyrir endann á heimsfaraldri; hvort hægt sé að finna einhverja leið til að umbuna þeim ríkulega fyrir þeirra gegndarlausu fórnir á síðustu 24 mánuðum.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra út í mönnunarvandann og hvort það komi til álita að hans mati, nú þegar við erum að senda okkar námsfólk út um heim þar sem þau sækja sér menntun í heilbrigðisvísindum, að liðka til (Forseti hringir.) fyrir viðurkenningu á menntun utan landsteinanna fyrir þá sem langar að fá að búa hér, þá erlendu ríkisborgara (Forseti hringir.) sem eru með fína menntun utan úr heimi en fá menntun sína ekki viðurkennda.