152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

staða mála á Landspítala.

119. mál
[16:38]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Þetta er góð umræða hér og það væri óskandi að við hefðum mun lengri tíma, en ég ætla að trúa því að við munum ræða þetta mun oftar á næstunni. Mig langar svolítið til að nýta tímann til að lýsa yfir ákveðnum áhyggjum yfir næstu skrefum. Ef við lítum tvö ár til baka voru það strax fyrstu viðbrögð stjórnvalda að sóttvarnaaðgerðir þyrftu að vera öflugar hér á landi til að bjarga viðkvæmri stöðu Landspítalans. Það réði för í tvö ár og tókst að mörgu leyti ágætlega þó svo ég taki fyllilega undir það að starfsfólk spítalans er sannarlega ekki ofhaldið af stöðu sinni. Síðan þegar á léttir kemur í ljós að hæstv. heilbrigðisráðherra er ekki sammála því að það hafi endilega ráðið för með sóttvarnaaðgerðir og það gaf svolítið tóninn, til viðbótar við það að þessi tvö ár voru ekki nýtt sérstaklega vel, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, af hálfu stjórnarinnar til þess að bæta stöðuna á Landspítalanum. En ég upplifi að við séum komin á tiltekinn núllpunkt aftur. (Forseti hringir.) Það hefur lítið áunnist á þessum tveimur árum þrátt fyrir þá lærdómskúrfu (Forseti hringir.) sem við gengum í gegnum varðandi viðkvæma stöðu spítalans og ég hef áhyggjur af þessu og ég óska svara: Hvar erum við stödd með þetta mál? (Forseti hringir.) Hvernig ætlum við að mæta þessu?

(Forseti (OH): Ég minni enn á að ræðutíminn er ein mínúta, ekki ein og hálf mínúta.)