152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

staða mála á Landspítala.

119. mál
[16:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Í byrjun þessa mánaðar birti ríkisstjórnin lista yfir aðgerðir til að efla stöðu Landspítala vegna álags af völdum kórónuveirufaraldursins. Þar var t.d. sagt að nú mætti Landspítalinn greiða fyrir viðbótarvinnuframlag starfsfólks, sem ég hélt að væri hvort eð er gert þegar fólk yrði að taka aukavaktir, og talað var um að styrkja mönnun með starfsfólki frá einkaaðilum. Það var ekki minnst á að hækka laun hjá fólki þannig að það myndi vilja vinna þarna. Það er náttúrlega stóri vandi Landspítalans. Starfsaðstæðurnar eru ólíðandi vegna þess að það er of lítið af fólki til að vinna of mikla vinnu. Það er of lítið af fólki vegna þess að því er hreinlega ekki borguð þau laun sem þarf til að haldast í starfi þarna. Ég tek þess vegna undir áhyggjur þeirra þingmanna sem nefnt hafa kjör heilbrigðisstarfsfólks sérstaklega vegna þess að það dugar ekki að tala um mikilvægi framlínustarfsfólks í gegnum allan faraldurinn en fylgja því ekki eftir með því að sýna í launaumslaginu hvers virði það fólk er þegar upp er staðið.