152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

staða mála á Landspítala.

119. mál
[16:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Frú forseti. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og öðrum sem tóku til máls hér. En það sem stendur samt svolítið upp úr svarinu er að það virðist engin langtímasýn vera til og í raun ekki búið að gera áætlanir um hvernig eigi að ná henni. Það er talað um að þetta eða hitt sé til skoðunar. Það er fylgst með stöðunni, það eru átakshópar, það eru tímabundnar lausnir t.d. í legurýmum og annað slíkt. Það er í raun mjög sorgleg staðreynd. Það sem ég var að kalla eftir að fá svör við var hvaða vinna væri í gangi við að leysa þennan vanda og hvernig, hvaða stefna hefði verið tekin og hvaða áætlanir væru til og greiningar og annað. En það er einhvern veginn allt bara í vinnslu en ekki orðið að neinu. Ég ætla að treysta því að hæstv. heilbrigðisráðherra taki á þessu og fari í þessa vinnu.

Hvað varðar mönnunarvandann, og þetta er hlutur sem ég sem kennari hef stundum velt fyrir mér, þá setjum við stundum ábyrgð á kerfum og rekstri alls konar kerfa, heilbrigðiskerfis, skólakerfis og fleira, á starfsfólkið, það sætti sig við lág laun af því að þetta séu svo mikilvæg kerfi og það beri uppi kerfin, með lélegum kjörum, og það taki ábyrgð, sem er ekki þeirra, á að kerfið geti rekið sig og kerfið virki. Við verðum einhvern veginn að breyta þessum hugsunarhætti.

Mig langar til að nefna það líka að fyrst og síðast snýst þetta um aðbúnað sjúklinga. Það á að miða allar ákvarðanir við sjúklingana. Starfsfólki þarf að líða vel og það þarf að geta sinnt sínum störfum með sóma en þetta snýst fyrst og fremst um aðbúnað sjúklinga og hann er, eins og fullt af dæmum er til um, alls ekki nógu góður í dag. Við verðum að taka betur á þessum málum.