152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

staða mála á Landspítala.

119. mál
[16:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að koma inn á fjórða atriðið sem hv. fyrirspyrjandi spurði um, getuna til að bregðast við neyðarástandi. Ég vísa þá til viðbragðsáætlana sem unnar eru eftir forskrift almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og í samvinnu við landlækni og sóttvarnalækni. Ég held að óhætt sé að segja að af reynslunni af faraldrinum hefur komið í ljós hversu mikilvægt það er að hafa þessar áætlanir, og líkt og önnur áföll undanfarinna missera hafa leitt í ljós þá hafa þessir aðilar reynst vel skilgreindir, þjálfaðir og samhæfðir.

Varðandi spítalann og þessa góðu umræðu hér þá er ég fyrstur til að viðurkenna að þetta er allt saman í ferli og skoðun og mótun og í viðbrögðum. Þannig verður það alla tíð. Gleymum því að við getum bara á morgun sagt: Við erum búin að leysa allan vanda. Þetta er það stór stofnun. Hún er það stór á fjárlögum í öllu samhengi að þetta verður viðvarandi verkefni. Það er áskorun fyrir allan heiminn að manna heilbrigðisþjónustu og sú þörf mun aukast. Ég vil hins vegar segja það að á spítalanum er margt mjög vel gert og er í miklu betra horfi en umræðan hér endurspeglar. Það er hins vegar alveg rétt að við þurfum að taka á ýmsum þáttum. Við erum með langtímastefnu í heilbrigðisþjónustu til 2030 og þar er hlutverk spítalans skilgreint. Við þurfum að horfa á spítalann í samhengi við alla aðra heilbrigðisþjónustu í landinu. Ég held að það sé stóra verkefnið, að ná utan um það og þess vegna fór ég að tala áðan um skilgreiningar á mönnun, (Forseti hringir.) skilgreiningar á hlutverki. Ég held að við getum gert miklu betur þar. (Forseti hringir.) Ég held að verkefnið sé svolítið að það náist betri yfirsýn yfir þessa hluti.