152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

biðlisti barna eftir þjónustu talmeinafræðinga.

121. mál
[16:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og fyrirspyrjanda, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, fyrir að beina athygli að þessu mikilvæga málefni, þjónustu talmeinafræðinga fyrir börnin okkar. Hv. þingmaður spyr fyrst hvort ég hafi beitt mér fyrir því að stytta bið barna eftir þessari þjónustu og afnema tveggja ára skilyrðið. Já, ég held að þetta hafi verið það fyrsta sem ég gerði þegar ég labbaði inn í ráðuneytið. Ég hafði bara engan skilning á því að þetta væri eitthvert atriði sem væri að þvælast fyrir, á milli stofnana og milli sérfræðinga. Ég hafði bara ekki skilning á því og mér fannst þetta líka jafnræðismál, það var búið að gera þetta annars staðar. Þannig að það var það fyrsta sem ég sagði, bara út með þetta. Þannig var það nú. Ég beitti mér fyrir því að þetta ákvæði væri fellt úr samningi Sjúkratrygginga Íslands og talmeinafræðinga. Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum varðandi samninga í framhaldinu þá hefur rammasamningur við talmeinafræðinga nú verið framlengdur óbreyttur fram á mitt ár meðan verið er að afla upplýsinga og vinna í þessu biðlistamáli og hafa þetta allt á hreinu, hafa þetta í lagi. Börnin eiga ekki að þurfa að bíða eftir þessari þjónustu og það má auðvitað færa mörg rök fyrir því. Það er staðan. Nýútskrifaðir talmeinafræðingar eiga því núna að geta veitt þjónustu sem er niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands. Alls eru nú 14 talmeinafræðingar sem hafa útskrifast sem eru ekki með tveggja ára starfsreynslu og ættu því að geta komist á samning eftir að skilyrðið var fellt út. Ég hef ekki upplýsingar um það hve margir hafa óskað eftir því að komast á slíkan samning og hverjir starfa á öðrum vettvangi eins og hjá sveitarfélögunum. Það er ýmislegt sem þarf að safna betur saman um þetta, hvernig þetta liggur. Þarna er enn eitt málið sem skarast svolítið á milli, þ.e. hvar talmeinafræðingarnir starfa.

Við afgreiðslu fjárlaga fékk heilbrigðisráðuneytið hækkun á fjárlögum sem nemur þeim kostnaðarauka sem fólst í þessu tveggja ára viðmiði og kostnaðurinn var metinn upp á 180 millj. kr. Samkvæmt gögnum frá Sjúkratryggingum er langstærsti hluti notendaþjónustunnar börn á aldrinum fjögurra til sjö ára. Það þarf því að horfa svolítið heildstætt á þessa þjónustu með þeim hætti að skapa meiri samfellu og tryggja að veitt sé rétt þjónusta á réttum stað. Það er starfshópur þriggja ráðuneyta, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, barna- og menntamálaráðuneytis auk heilbrigðisráðuneytis, að skoða þjónustuna með þetta fyrir augum og til að tryggja að börn fái þjónustuna án tafar og á réttum stað. Eitt af því sem hefur verið skoðað í þessari vinnu eru möguleikar á að koma upp miðlægum biðlistum og það hefur verið lögð áhersla á að hópurinn vinni hratt og er fyrirhugað að hann skili af sér tillögum í lok mars. Þá ætti að liggja skýrar fyrir hvort og þá hvenær hægt sé að koma upp slíkum miðlægan biðlista. Þá ætti líka að skýrast hversu margir einstaklingar bíða eftir þjónustunni og nákvæmlega hversu löng biðin eftir þjónustunni hefur verið eða er. Það er gert ráð fyrir að niðurstaðan liggi fyrir á þessum tíma. Ég met það bara þannig að þetta verði að liggja fyrir til grundvallar þeim samningum sem þarf að ná með þessa sex mánuði í huga, fram að þeim tíma. Þá náum við vonandi góðum og ásættanlegum samningi sem tekur við þegar þessi samningur rennur út.

Varðandi þriðja atriðið sem hv. þingmaður kom inn á, sem var um mönnun, fagfólkið og þjónustuna, sem er augljóslega lykilatriðið í þessu þegar við horfum inn í framtíðina og á samningagerðina sem liggur fyrir, þá eru sannarlega vísbendingar um að þessir biðlistar hafi myndast vegna þess að talmeinafræðinga vanti, það þurfi að fjölga útskrifuðum talmeinafræðingum. Ég held að það sé alveg hægt að fullyrða það. Háskóli Íslands er eina menntastofnunin hér á landi sem býður upp á nám í talmeinafræði og hún er kennd á meistarastigi. (Forseti hringir.) Ég þarf að bæta aðeins við þetta svar vegna þess að þetta er algjört lykilatriði, að horfa á mönnunina (Forseti hringir.) og hvernig við mætum mönnunarþörfinni til þess að biðtíminn sé ekki eins og verið hefur.