152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

biðlisti barna eftir þjónustu talmeinafræðinga.

121. mál
[17:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, fyrir þessa mikilvægu fyrirspurn en um leið var erfitt að hlusta á hana segja frá hinum sársaukamikla reynsluheimi foreldra og barna sem standa frammi fyrir því að þurfa þjónustuna en fá hana ekki af því að kerfið segir nei, af því að pólitísk stefna þessarar ríkisstjórnar síðustu fjögurra ára hefur verið á þann veg að það má ekki leita til sjálfstætt starfandi aðila. Það á að þvæla kerfinu, reyna að stoppa það að við reynum að nýta krafta allra, hafa bæði sterkar opinberar heilbrigðisstofnanir og nýta sjálfstætt starfandi aðila eins og mikilvæga talmeinafræðinga, sjúkraþjálfara o.s.frv. Ég fagna því sérstaklega hvað hæstv. ráðherra gerir, mér finnst hann byrja vel með því að afnema þessa dellu. Um leið vil ég hvetja hann áfram til þess að opna fyrir það að nýta krafta allra sem eru í heilbrigðisgeiranum, hvort sem það eru einkaaðilar eða opinberir, til þess að minnka og grynnka á biðlistum, (Forseti hringir.) hvort sem það er gagnvart talmeinafræðingum, sjúkraþjálfurum, sálfræðingum eða annars staðar í kerfinu (Forseti hringir.) öllu. Allar hendur á dekk, fordómana burt í stjórnkerfinu.