152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

biðlisti barna eftir þjónustu talmeinafræðinga.

121. mál
[17:03]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Þetta er fín umræða sem ég þakka fyrir og ég hef fulla trú á því að ráðherra vilji og ætli sér að gera betur í þessu máli en fyrrverandi heilbrigðisráðherra gerði í tíð þessarar sömu ríkisstjórnar. Svo einfalt er það nú.

Mig langar að spyrja hann um skoðun hans á því að nýta betur þær tæknilausnir sem til eru í þessum geira vegna þess að ég hygg að til séu fáar heilbrigðisgreinar þar sem betur er hægt að nýta tæknina en einmitt í þjónustu talmeinafræðinga. Við bætist, að mér sýnist, að mikill fjöldi sem bíður því miður eftir þjónustu þessara sérfræðinga býr einmitt víðs vegar á landsbyggðinni. Hvers vegna er þetta ekki reyndin? Af hverju er ekki verið að nýta þjónustu þeirra aðila sem sannarlega geta boðið upp á hana? Staðreyndin er sú að dregið hefur úr þeirri þjónustu. Fyrirtæki sem geta boðið upp á hana hafa þurft að segja upp samningum við t.d. sveitarfélög vegna þess hvernig ríkið hefur búið að þessu. Mig langar að biðja ráðherra að gefa því gaum í lokin hver sú staða er, (Forseti hringir.) þ.e. hvort ætlunin sé ekki að nýta þetta. — Nú sé ég að forseti er farinn að ókyrrast og ég stíg hér úr ræðustól.