152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

blóðgjöf.

226. mál
[17:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir þessa fyrirspurn um blóðgjöf. Hún snýr að endurskoðun reglugerðar nr. 451/2006 um að m.a. yrði óheimilt að mismuna blóðgjöfum á grundvelli kynhneigðar. Það er auðvitað freistandi, hv. þingmaður, að svara hér: Nei, þetta er ekki della og þetta er handan við hornið. Það er ekki þeim að þakka sem hér stendur en ég setti mig þokkalega vel inn í málið til að rekja það í einhvers konar tímalínu. Mér finnst þetta mjög athyglisverð fyrirspurn og auðvitað er um grundvallarréttlætismál að ræða eins og hv. þingmaður kom inn á. Þetta eru grundvallarmannréttindi. Á sama tíma er það auðvitað öryggismál og auðvitað mikilvægt að blóðgjöfum sé ekki mismunað á sama tíma og tryggja þarf öryggi blóðþega og þess vegna hefur þetta tekið einhvern tíma.

Ég fór að lesa mér betur til um þetta mál um helgina til að geta séð tímalínuna í þessu. Þessi umræða á sér auðvitað sögu nokkur ár aftur í tímann, og raunar enn lengri, en ég ætla að byrja svar mitt árið 2018. Þá skipaði forveri minn, hæstv. þáverandi ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, ráðgjafarnefnd á grundvelli 7. gr. reglugerðar um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs, nr. 451/2006. Það er nefnd sem skal vera heilbrigðisyfirvöldum, Landspítala og blóðbanka til ráðuneytis um hvaðeina er lýtur að faglegum þáttum og öryggissjónarmiðum blóðbankaþjónustunnar. Árið 2019 mælti ráðgjafarnefndin, í samráði við Blóðbankann, einmitt með því að samkynhneigðir karlmenn fengju að gefa blóð og stigin yrðu skref hér að fyrirkomulagi sem gilt hefur m.a. annars staðar á Norðurlöndum. Til að svo megi verða hefur þurft að vinna að nokkrum breytingum; áhættugreiningum og fyrst og fremst að taka upp skimun blóðs með svokölluðu kjarnsýruprófi eða NAT, á ensku nucleic acid test, virðulegi forseti. Samhliða slíkri skimun á blóði þarf að framkvæma smithreinsun rauðkorna. Það er rétt að taka fram að blóðflögu- og plasmahreinsanir voru innleiddar hér á árunum 2012–2014.

Drög að breytingum á reglugerð um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs voru birt í samráðsgátt stjórnvalda þann 9. september síðastliðinn. Með drögunum voru kynnt áform um að fella brott ákvæði um að kynhegðun sé varanleg frávísun gjafa blóðeininga, auk m.a. markmiðsákvæðis um að óheimilt væri að mismuna blóðgjöfum á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, svo sem vegna kyns, kynhneigðar, uppruna eða annarra sambærilegra ástæðna. Í einni af 15 umsögnum við reglugerðardrögin lagði Blóðbankinn áherslu á að vinna markvisst eftir tímasettri áætlun og vísað er til tillagna ráðgjafarnefndarinnar um fagleg málefni blóðbankaþjónustu. Þetta var í framhaldi af þessari vinnu 2018–2019.

Ég kynnti mér jafnframt, virðulegi forseti, sambærilegar tímalínur, á Englandi, Hollandi og Kanada og margt fróðlegt efni sem liggur hér til grundvallar. Það er mikilvægt, með hliðsjón af þessum umsögnum við fyrirhugaðar breytingar, að hafa samráð við hlutaðeigandi fagaðila, Landspítalann, sóttvarnaráð og embætti landlæknis samhliða því að hrinda innleiðingaráætlun af stað og fylgja eftir fyrri tilmælum um að Landspítalinn taki upp kjarnsýruprófun, NAT-skimun á blóði sem kölluð er, og að embætti landlæknis hlutist jafnframt til um fræðslu og kynningarstarf varðandi blóðgjafir hér á landi.

Ég hef þegar undirritað tillögu þessa efnis, og það kom í minn hlut hér á dögunum, um nauðsynlegt samráð þessara helstu fagaðila, innleiðingaráætlunina og upptöku kjarnsýruprófsskimunar og þær nauðsynlegu forsendur fyrir reglugerðarbreytingum sem ég hef rakið hér. Ég get sagt það hér að ég var að reyna að finna það út úr þessum upplýsingum öllum hvenær þetta gæti gerst, hvenær við gætum séð þessa reglugerðarbreytingu og spurði hreinlega að því vegna þess að mér fannst það óljóst. Svarið sem ég fékk í ráðuneytinu var apríl/maí.