152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

nýskráning á bensín- og dísilbílum.

131. mál
[17:42]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Ef ríkisstjórninni er einhver alvara með að Ísland eigi að verða óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040, þá verður hæstv. loftslagsráðherra auðvitað að gefa skýr svör um það hvenær nýskráningu fólksbíla sem ganga fyrir bensíni og dísil verði hætt. Svo þarf að ýta undir uppbyggingu hleðslustöðva og innviða um allt land í samræmi við það. Mér heyrist á hæstv. ráðherra að enn þá sé stefnt að því að hætta nýskráningu árið 2030, eins og í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. En það er allt of seint. Það er ekki pláss fyrir innflutning á öllum þessum bensín- og dísilbílum næsta áratuginn ef við ætlum að ná fram einhverjum alvörusamdrætti í losun frá vegasamgöngum. Það er ekki pláss fyrir alla þessa bíla. Reikningsdæmið gengur ekki upp. Þá þyrfti væntanlega að ráðast í einhverja heljarinnar förgunaráætlun eða að banna bíla eftir árið 2030. Ég veit ekki hvað ríkisstjórnin sér eiginlega fyrir sér. Það er bara verið að velta vandanum einhvern veginn á undan sér og þetta er þá bara vandi sem næstu ríkisstjórnir á eftir þessari taka við.