152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

nýskráning á bensín- og dísilbílum.

131. mál
[17:47]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og öðrum hv. þingmönnum fyrir umræðuna. Það er auðvitað afskaplega mikilvægt að hafa metnað. Þessi ríkisstjórn — það var nú áður en settur var meiri kraftur í þann metnað — kynnti áform sín hér áður á alþjóðavettvangi og ég hef ekki heyrt einn einasta mann halda öðru fram en að þau séu mjög metnaðarfull. Það sem mér finnst vanta í þessa umræðu er ekki að menn segi: Það vantar metnað. Það er allt í lagi, ég tek því bara. En við erum bara að horfa á það núna varðandi fiskimjölsverksmiðjurnar, sem við ætluðum að keyra með rafmagni, að verið er að keyra þær með olíu. Fjarveiturnar er verið að keyra með olíu. Við erum fara til baka. Ég vonast bara til þess að það sem kemur fram í þessari umræðu skili sér í störfum þingsins, því að þetta er alvörumál. Það er alvörumál að ná þessum markmiðum. Ég fór yfir stöðuna í þessu litla verkefni, þ.e. orkuskiptum í fólksbílum, því að það er ekki stærsta orkuskiptiverkefnið, fólksbílarnir. Við eigum eftir að fara í þungaflutningana. Við eigum eftir að fara í innanlandsflugið. Við eigum eftir að fara í flotann. Við eigum eftir að fara í millilandaflugið og aðra atvinnustarfsemi. Ég fagna því að mér sé haldið við efnið og sagt: Vertu metnaðarfyllri. Ég tek því bara fagnandi. En við verðum líka að horfast í augu við raunveruleikann. Bara hvað fólksbílana varðar er það líka verkefni fyrir okkur að sjá til þess að þessar lausnir séu fyrir alla tekjuhópa. Við þurfum líka að sjá til þess að það sé fyrir alla landsmenn. Ég treysti því að um það verði góð samstaða á hv. Alþingi, ekki bara talað fyrir markmiðum heldur séð til þess að við náum þeim, því að það er það sem við ætlum að gera fyrir alla og ekki síst unga fólkið. (Gripið fram í.)