152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

um fundarstjórn.

[13:43]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram varðandi það sem ráðherra kallar VIP-leið á Alþingi að það getur vel verið að það sé hraðari málsmeðferð hér en það skiptir bara engu máli. Það hefur engin áhrif á meðferð fyrir Útlendingastofnun. Málið sem er hérna undir er það að ráðherrann og Útlendingastofnun vilja knýja fram breytingar á lögunum. Við getum alveg rætt það. Það er tvöfalt kerfi í gangi, annars vegar er veittur ríkisborgararéttur hjá Útlendingastofnun og hins vegar á Alþingi. Ráðherra og Útlendingastofnun vilja klárlega að knýja fram breytingu á lögunum og þetta er aðferðafræði þeirra við að gera það, að skila ekki inn gögnum sem Alþingi er búið að biðja um samkvæmt 51. gr. laga um þingsköp. Útlendingastofnun er að brjóta þingskapalög, svo það sé algerlega á hreinu, og þessi aðferðafræði sem er notuð er algjört hneyksli. Það hefur verið talað hér um málefnalega umræðu, ég skora á hæstv. dómsmálaráðherra, eða er það innanríkisráðherra núna? að koma í málefnalega umræðu um þetta mál fyrir nefndinni eða hér í þingsal Við skulum sjá hver hefur vinninginn þar og hvað á að gera í þessu máli. Það sem á að gera er að skila þessum umsögnum (Forseti hringir.) inn strax, þessum gögnum með umsögnum og umsóknum nú þegar.