152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[14:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Áróðurinn er hafinn, undirbúningurinn að því að botnvirkja landið er á fullu og byrjar með hræðsluáróðri um orkuskort. Það er þrátt fyrir að orkunotkun hafi minnkað á undanförnum árum. Árið 2019 minnkaði notkun um 1,7%, 0,7% í stórorkunotkun og 4,7% í almennri notkun. Setjum það í samhengi við það þegar verið er að segja að hér sé orkuskortur. Ég geri ekki lítið úr því að það vanti orku á ákveðnum svæðum en það er dreifingarvandamál en ekki framleiðsluvandamál. Þar kemur t.d. þriðji orkupakkinn til hjálpar eða ætti að gera því að hann tryggir og á að tryggja að stjórnvöld tryggi heimilum og litlum fyrirtækjum rafmagn, ekki stórnotendum. En er verið að gera það? Nei.

Það er ekki þannig að þó að olía sé til staðar þá eigum við að nýta hana eða að þó að áin renni fram hjá þá eigum við að virkja hana. Það er ekki þannig. Við þurfum að hugsa um þetta í stærra samhengi. Í samhengi loftslagsvandans höfum við í mannlegu samfélagi aldrei búið við annað hitastig en það sem við þekkjum í dag, þessi 11.000 ár síðan við byrjuðum landbúnað. Við þetta hitastig byggðum við borgir, vegi, stunduðum landbúnað, byggðum gríðarlega stór mannvirki, gríðarlega víðfeðmt samfélag, samfélag sem þolir ekki 1–2 m hækkun á sjávarborði á þessari öld án þess að það kosti okkur mjög mikið. Það er auðvelt að afneita vandanum. Breytingar eru svo hægfara á okkar mælikvarða að það er hægt að kenna tímabundnum sveiflum um. Vandinn er að við fórum seint af stað og við sjáum ekki að tímabundnu sveiflurnar eru rangar fyrr en of seint. Lausnin er sjálfbært hringrásarsamfélag. Jafnvel þótt allur loftslagsvandinn væri plat væri samt gott að búa til sjálfbært samfélag. Kostnaðurinn við það (Forseti hringir.) mun alltaf margborga sig á meðan allt annað bókstaflega bliknar í samanburði. (Forseti hringir.) Þá erum við bara að tala um beinharða peninga. Ástæðan fyrir því að við eigum að taka upp sjálfbærni (Forseti hringir.) er hins vegar svo miklu betri en að vera bara peningaleg. Sjálfbært samfélag er nefnilega friðsælt samfélag og það er ómetanlegt.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna þingmenn á að halda tímamörk.)