152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

loftslagsmál.

[14:59]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Mig langar að ræða hér orð, væntingar og efndir. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er skýrt markmið um að lokið verði við þriðja áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu og að kostum í biðflokki verði fjölgað. Fyrir nokkrum dögum spurði ég formann Framsóknarflokksins um plan ríkisstjórnarinnar til að svara helstu áskorunum sem fram undan eru í orkumálum, annars vegar að tryggja orkuöryggi um allt land, en þar hefur tíminn einfaldlega verið ævintýralega illa nýttur síðustu fjögur og hálft ár, og hins vegar að mæta metnaðarfullum orkuskiptamarkmiðum stjórnvalda í þágu loftslagsmála. Samtalið var ágætt og um margt áhugavert og ráðherra var skýr þegar hann sagði að það vantaði orku og hann boðaði virkjanaframkvæmdir. Hluti af þeirri nálgun fælist í að stækka biðflokk rammaáætlunar og taka tiltekna orkukosti sem nú eru í virkjanaflokkum og verndarflokkum og færa yfir í biðflokk; svar í samræmi við stjórnarsáttmála. En fyrr sama dag hafði hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, hins vegar kynnt þingmálaskrá sína fyrir umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og þar kom skýrt fram að þriðji áfangi rammaáætlunar verður enn og aftur lagður óbreyttur fram, í fjórða skipti, eftir fjögur og hálft ár af sama stjórnarsamstarfi. Samkvæmt þessu ætlar ríkisstjórnin ekki að reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu heldur varpa vandanum óleystum yfir til þingsins þar sem stjórnarþingmenn vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga, í hvorn fótinn þeir mega stíga.

Frú forseti. Svarið við þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir felst í því að breyta þessum vinnubrögðum, bæði hvað varðar orkumálefni og loftslagsmálefni. Við þurfum samráð og samvinnu frekar en átök og flokkadrætti. Land og þjóð eiga það inni hjá okkur að við gerum betur.