152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[16:56]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Forseti. Mig langaði bara að koma hingað upp og ræða aðeins það ágæta frumvarp sem hér er komið fram, og til að hvetja þingheim til að veita því framgang innan þingsins vegna þess að um afar mikilvægt mál er að ræða. Frumvarpið er í raun og veru mjög einfalt og snýst um að veita Fjölmenningarsetri þær heimildir sem það þarf til að það geti sinnt sínu hlutverki, þ.e. að vera tengiliður milli innflytjenda og sveitarfélaga. Slíkt er bara afar mikilvægt. Sú samræmda móttaka sem hér er um að ræða, sem hæstv. ráðherra kom inn á áðan, og er nú í reynsluferli, hefur gefist afskaplega vel og er mjög jákvæð breyting. Til þess að það verkefni geti gengið eins og lög gera ráð fyrir þá þarf þessa breytingu og ég fagna henni innilega.