152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:00]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það skref sem við getum stigið ef við samþykkjum þetta frumvarp sé kannski ekki síst til þess að taka enn betur á móti því fólki sem hér hefur fengið vernd. Ég tek aftur undir með hv. þingmanni, það skiptir máli að ná þessu máli í gegn þannig að við getum styrkt Fjölmenningarsetur í því hlutverki sem því ber að sinna. Ég held að við séum einfaldlega að reyna bæði að samhæfa betur og taka betur á móti þeim sem hér hafa fengið vernd, sinna betur þeim þörfum sem hver og einn hefur. Þetta verkefni, þetta tilraunaverkefni, með samræmda móttöku hjá sveitarfélögunum, hefur gengið vel en okkur vantar slíka heimild fyrir stofnunina til að geta kallað eftir persónuupplýsingum.