152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég veit að hann er reynslubolti þegar kemur að málefnum flóttafólks á erlendum vettvangi, hann hefur mikla og góða starfsreynslu í þeim efnum. Ég verð samt að segja að mér fannst ræða hv. þingmanns mjög athyglisverð, sérstaklega orðfærið sem hann notaði þegar hann sagði að við værum þekkt fyrir skelfilega framkomu í móttöku hælisleitenda. Ég get engan veginn fallist á það vegna þess að það er almennt viðurkennt, og hefur komið fram hjá dómsmálaráðuneytinu, að Ísland veitir einna bestu þjónustuna í Evrópu þegar kemur að móttöku flóttafólks og hælisleitenda. Ég skil ekki alveg þessa fullyrðingu hjá hv. þingmanni. Auk þess kom hann inn á hinsegin einstaklinga, að þeir fengju mjög slæmar móttökur hér. Það er alrangt hjá hv. þingmanni. Hér hefur sérstaklega verið tekið á móti, þegar kemur að kvótaflóttamönnum, fólki sem hefur einmitt verið ofsótt í heimalandi sínu fyrir að vera samkynhneigt. Ég get því ekki séð að þessi fullyrðing standist hjá hv. þingmanni. Auk þess segir hann að rasismi og mannhatur einkenni þau frumvörp sem hér hafa verið lögð fram. Ég verð að segja: Hv. þingmaður tekur ansi stórt upp í sig þegar hann fullyrðir það. Á síðastliðnum tveimur árum hafa komið hingað um 1.200 hælisleitendur og fengið dvalarleyfi og ég veit ekki betur en þeim hafi verið veitt góð þjónusta. Ég verð að segja, hv. þingmaður, þótt ég hafi ekki beina spurningu — jú, ég held kannski að hv. þingmaður verði að rökstyðja betur málflutning sinn hér vegna þess að ég tel hann ekki standast.